Hringbraut skrifar

Varað við hlyni kristni: vilja hann ekki í skólana - „þessi maður er hrottalegur ofbeldismaður“

13. september 2019
20:50
Fréttir & pistlar

Hlynur Kristinn Rúnarsson er einn þekktasti fyrrverandi fangi á Íslandi. Áður en Hlynur var handtekinn í borginni Fortaleza í Brasilíu undir lok árs 2015 með mikið magn af kókaíni vakti hann athygli fyrir afar umdeilda pistla sem voru birtir á Menn.is. Þar sagði hann um Free The Nipple byltinguna:

„Vill hreint út þakka íslenskum stelpum fyrir að bomba þeim inná netið svo maður þurfi ekki að skilja neitt eftir fyrir ímyndunaraflið.“

Fær að heimsækja unglinga í skóla

Eftir að Hlynur losnaði úr og kom aftur til Íslands var hann í mikilli neyslu og reykti þá orðið kókaín. Hann kveðst hafa verið án fíkniefna í rúma þrjá mánuði og hefur fengið leyfi skólastjórnenda til að ræða við krakka og segja þeim sögu sína. Hefur Hlynur stofnað sérstaka síðu til að halda utanum frásagnir af þeim bata sem hann kveðst vera í. Hann var svo í stóru viðtali við Mannlíf í dag og hafði áður verið í ítarlegu viðtali á N4.

Varað við Hlyni

Fréttablaðið greinir svo frá því að inná síðu Hlyns sem hann nýtir til að segja frá reynslu sinni hafi manneskja undir dulnefni varað við Hlyni. Þar skrifaði viðkomandi:

„Menntaskólar athugið: Þessi maður er hrottalegur ofbeldismaður. Hlynur hefur beitt alla sína fyrrum maka lífshættulegu ofbeldi og ekki enn tekið ábyrgð á því eða reynt að biðja þolendur sína fyrirgefningar þrátt fyrir að vera veitt skýr tækifæri til þess nú í edrúmennskunni. Hið gagnstæða hefur átt sér stað og ennþá í dag segir hann þær hafa látið sig gera það (beita þær ofbeldinu). Hann er enn þá hættulegur einstaklingur, veikur í hugsun og þarf að fyrirbyggja að hann komist eitthvað nálægt börnum í menntaskóla eða öðrum viðkvæmum hópum.“

Hlynur svaraði þessu og var ósáttur við hversu margir væru að \"læka\" þetta innlegg. Hann sagði:

„Bæði er umsögnin gerð til þess að skemma fyrir manni og til þess að sverta mannorð mitt en ég er ekki ofbeldismaður. Þótt ég hafi verið á slæmum stað með sjálfan mig og oft verið leiðinlegur ... sem ég hef nú þegar axlað ábyrgð á og beðist afsökunar á.“

Hér má lesa umfjöllun Fréttablaðsins.