Valdimar lýsir kostulegu símtali: Áttaði sig á eigin mistökum þegar hann skellti á

Tónlistarmaðurinn Valdimar Guðmundsson er engum líkur og hann átti býsna kostulegt símtal við konu á dögunum sem hann þekkir ekki neitt.

Valdimar lýsti þessu í færslu á Facebook-síðu sinni og deildi frásögninni sem með fylgjendum sínum á Twitter í gærkvöldi. Óhætt er að segja að færslan hafi fengið marga til að brosa.

Gefum Valdimar orðið:

„Í dag hringdi ég í manneskju sem ég þekki ekki neitt varðandi gigg. Þegar hún svaraði í símann þá heyrði ég að hún var að hlusta á eitthvað lag sem ég kannaðist svolítið við. Þá var þetta lagið Jólin eru okkar sem ég söng með henni Bríet fyrir ekki svo löngu. Svo sló þögn á samtalið og þá fannst mér eins og hún hækkaði aðeins í græjunum til að leyfa mér að heyra að hún væri að hlusta á lag með mér. Ég rauf þögnina og sagði „Já, flott.“ og hélt svo áfram að segja það sem ég vildi segja í þessu frekar formaða samtali.“

Valdimar segir svo að hann hafi allan tímann velt því fyrir sér hvort hún ætlaði ekki að fara að lækka í músíkinni en það hafi ekki gerst, einhverra hluta vegna. Hvert jólalagið á fætur öðru hafi spilast á blasti í gegnum samtalið.

„Það er ekki fyrr en eftir að ég skelli á að ég fatta að þetta var mitt eigið Spotify að spila random lög eftir að ég hafði áður verið að hlusta á lagið Yndislegt líf í æfingarskyni. Þannig að ef við spólum aðeins til baka, þá var eins og ég hafi hringt í þessa manneskju, tekið langa pásu til að leyfa henni að heyra að ég væri að hlusta á jólalag með sjálfum mér í maí, sagði svo „Já, flott.“ og hélt svo áfram samtalinu með jólalög á blasti allan tímann.“