Aníta Estíva skrifar

Útköll slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins fer reglulega yfir 100 eða fleiri á sólarhring - mikil aukning á milli ára

14. janúar 2020
10:43
Fréttir & pistlar

Starfsmenn Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins fóru í samtals 33.436 útköll á síðasta ári sem er aukning um 377 útköll frá árinu á undan. Flest útköllin voru í desember síðastliðnum eða 3.059 talsins.

Þetta segir Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins á Facebook síðu sinni sem nýverið fór yfir tölfræði undanfarinna ára. Samkvæmt þessum tölum fór slökkviliðið að meðaltali í 98 útköll á sólarhring í desember.

„Útköllum liðsins hefur fjölgað jafnt og þétt undanfarin ár og ef horft er aftur til ársins 2015 hefur aukningin verið 12,5%, eða um tæplega 4.000 útköll. Gildir það þó aðallega um útköll vegna sjúkraflutninga því útköll vegna slökkvistarfa hafa staðið í stað, og þeim jafnvel fækkað. En þrátt fyrir fækkun þeirra útkalla hefur umfang verkefna vegna erfiðra slökkvistarfa frekar aukist ef eitthvað er,“ segir á síðu þeirra.

Þar segir einnig að þrátt fyrir að meðaltalið hafi verið 98 útköll á sólarhring í desember síðastliðnum eru þau oft mun fleiri. Ef litið sé til þess hversu oft útköllin voru 100 eða fleiri á sólarhring í fyrra gerðist það 130 sinnum en aðeins 110 sinnum á árinu 2018 sem gerir 18,2% aukningu. Ef litið er til ársins 2015 og það skoðað út frá sömu forsendum voru aðeins 36 sólarhringar þar sem útköllin voru fleiri en 100. Það þýðir að það sé næstum þreföldun fram til ársins 2019. Aukning þessi undirstrikar auknar álagssveiflur á milli ára, í takt við heildarfjölgun útkalla.