Utanríkisráðherra vinstri stjórnarinnar óttast vinstri stjórn!

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, er í löngu viðtali við Morgunblaðið um helgina sem ekki þarf að koma á óvart í ljósi stóratburða í heiminum þessa dagana. Bretar hafa nú endanlega kvatt Evrópusamstarfið og standa eftir berskjaldaðir og horfast nú í augu við eigin mistök sem birtast í vaxandi atvinnuleysi, fallandi gjaldmiðli, litlum og minnkandi hagvexti, flótta stórfyrirtækja frá Bretlandi til meginlandsins og mikilli óeiningu í landinu - að ekki sé talað um Skota og Íra sem una hag sínum illa.

Einnig gengur óvenjumikið á í Bandaríkjunum þessa dagana vegna ófriðlegra forsetaskipta og óeirða sem sumir óttast að leitt geti til vopnaðra átaka innanlands og nánast borgarastyrjaldar.

Þrátt fyrir risastór utanríkismál og merkilega þróun á vettvangi heimsmálanna, vekur mesta athygli hvernig Guðlaugur Þór tjáir sig um stjórnmálaviðhorfið hér heima. Hann talar um þá hættu sem gæti stafað af mögulegri vinstri stjórn eftir kosningar til Alþingis sem munu fara fram í síðasta lagi næsta haust. Full ástæða er til að taka undir áhyggjur ráðherrans vegna þeirra afleiðinga sem myndun nýrrar vinstri stjórnar myndi hafa í för með sér. Nógu slæmt er að þurfa að búa við núverandi vinstri stjórn sem senn rennur sitt skeið. Vinstri stjórn Katrínar Jakobsdóttur, formanns sósíalista, fer frá á árinu 2021. Ástæða er til að fagna brottför hennar og telja dagana þar til ríkisstjórn Katrínar kveður. Einnig er ástæða til að vera vel á verð til að tryggja að ekki verði þá mynduð ný vinstri stjórn - núverandi flokka og þá endurbætt með aðkomu Flokks fólksins eða Samfylkingarinnar, eða þá alveg ný vinstri stjórn frá grunni með Samfylkingu, Vinstri grænum, Pírötum, Flokki Fólksins og Sósíalistaflokki Gunnars Smára.

Varnaðarorð Guðlaugs Þórs eru þörf. Ljóst er að Íslendingar þurfa allt frekar en vinstri stjórn til að ná þjóðfélaginu upp úr veiruvandanum sem skaðað hefur ríkissjóð, sveitarfélög, atvinnulífið og fólkið í landinu, ekki síst þau tólf prósent landsmanna sem búa við atvinnuleysi. Við þurfum framfarasinnaða umbótastjórn en í slíkri stjórn er ekkert rými fyrir sósíalista sem vilja einungis hækka skatta, auka ríkisútgjöld og safna opinberum skuldum í stað þess að leggja höfuðáherslu á verðmætasköpun úti í atvinnulífinu sjálfu.

Það sem er svo skemmtilega snúið við orð Guðlaugs Þórs í viðtalinu er bara sú staðreynd að hann er sjálfur utanríkisráðherra í vinstri stjórn Katrínar Jakobsdóttur, formanns Vinstri grænna (sem áður hét Alþýðubandalag, þar áður Sósíalistaflokkur og enn fyrr Kommúnistaflokkur Íslands. Allaf hið sama, bara með nýjum nöfnum).

Helstu forystumenn Sjálfstæðisflokksins ættu að tala varlega um þá vá sem þjóðinni stafar sannarlega af vinstri stjórnum þegar þeir eru sjálfir á kafi í vinstristjórnarsamstarfi. Lengi vel var Sjálfstæðisflokkurinn kjölfesta og mótvægi við sósíalisma á Íslandi. Sú staða breyttist og brotnaði þegar flokkurinn gekk inn í ríkisstjórnarsamstarf við Vinstri græna undir forystu formanns sósíalistanna. Og til að bíta höfuðið af skömminni samþykkti flokkurinn að Steingrímur J. Sigfússon fengi að sitja „á friðarstóli“ í sæti forseta Alþingis eftir alla þá framkomu sem hann hefur sýnt Sjálfstæðisflokknum á löngum og umdeildum stjórnmálaferli.

Margir munu taka undir orð utanríkisráðherra um að varast beri að vinstri stjórn haldi hér áfram eftir komandi kosningar. Fyrsta skrefið hlýtur þá að vera að Sjálfstæðisflokkurinn sjálfur rífi sig lausan úr pólitísku faðmlagi sínu við sósíalistanna.