Upprisa Friðriks Þórs slær í gegn: „Hvaðan kom hann? Hvert er hann að fara?“

Friðrik Þór Friðriksson, einn af okkar fremstu kvikmyndaleikstjórum, er staddur á Evrópumótinu í handbolta í Ungverjalandi. Hann var í salnum þegar Ísland vann frækinn sigur á Ungverjalandi í spennandi leik í gærkvöldi og tryggði sér þar með sæti í milliriðlum mótsins með fullt hús stiga.

Edda Sif Pálsdóttir, íþróttafréttakona á RÚV, birti myndband af Friðriki í salnum á Twitter-síðu sinni og er óhætt að segja að hann hafi skorið sig nokkuð úr.

„Þessi upprisa þarna hjá Friðriki Þór.. það á alveg eftir að ræða hana,“ sagði Edda Sif. Einar Örn Jónsson, sem hefur lýst leikjum íslenska liðsins af stakri prýði, deildi færslunni og virtist býsna skemmt.

Í athugasemdum við færsluna rifja margir upp lýsingu Adolfs Inga Erlingssonar í bronsleik gegn Póllandi á Evrópumótinu í Austurríki árið 2010.

„Sjáið þið Alexender Petersson. Ég hef bara aldrei séð aðra eins vörn. Hvaðan kom hann, hvert er hann að fara, hvað er hann? Hvernig er þetta hægt,“ sagði hann en varnartilburðir Alexanders voru einhverjir þeir bestu sem sést hafa í handboltaleik.

Og Twittverjar voru ekki lengi að klippa saman lýsingu Adolfs Inga úr þessum fræga leik við upprisu Friðriks Þórs í salnum í gærkvöldi eins og sjá má hér að neðan.