Unnur var ávítt af starfsmanni heilbrigðiseftirlitsins – Læknir heyrði samtalið og stoppaði það

Unnur Guðrún Pálsdóttir, eigandi og stofnandi Greenfit, segir mikilvægt að mæla heilsu fólks áður en heilbrigðiskerfið þarf að taka við því.

Unnur, sem er oftast kölluð Lukka, er nýjasti gesturinn í Podcasti Sölva Tryggvasonar. Þar segist hún í störfum sínum sjá að sykursýki gæti orðið faraldur næstu áratuga og þar með mikil fjárhagsleg byrði á heilbrigðiskerfið:

„Við erum að sjá mjög áhugaverða hluti í mælingunum okkar hjá Greenfit og núna erum við komin með enn betri mynd af ákveðnum þverskurði þjóðarinnar. Sykurpartíið er aðeins of langt gengið. Við sjáum það í tölunum hjá okkur að of stór hluti Íslendinga eru með of há gildi í blóðsykri. Samt höfum við líklega verið að fá til okkar frekar heilsumeðvitað fólk. En núna nýlega höfum við verið í samstarfi við stór fyrirtæki og þá sjáum við breytingar í tölunum sem benda til þess að sykurgildi fólks almennt séu ekki eins og þau ættu að vera. Sem betur fer eru alltaf fleiri og fleiri að verða meðvitaðri um áhrif lífsstíls á heilsu og fólk vill virkilega bæta sig þegar það fær réttar upplýsingar. Það eru í grunninn þrír þættir sem eru að hafa mest áhrif á heilsu venjulegs fólks. Það eru langvinnar bólgur, vandamál í meltingarvegi og svo blóðsykurinn eða insúlínnæmi. Þessir þættir eru allir þannig gerðir að það er undir okkur sjálfum komið að hafa áhrif á þá. Við getum sannarlega unnið í rótunum, jafnvel þó að eitthvað sé komið úr lagi. Það er aldrei of seint að grípa inn í lífsstílinn,“ segir Lukka sem segist telja að oft séu fíkniávanar í matarræði leið til að borða yfir tilfinningar

„Það er orðið mikið feimnismál að tala um ofþyngd, en við verðum að geta rætt hlutina. Ég held að mjög oft sé fíkn í matarvenjum leið til að deyfa sársauka. Auðvitað er það ekki alltaf þannig, stundum er það bara efnafræðilegt, en ég held að oft séum við að verja okkur af því að við erum með sár á sálinni. Við erum ein heild og þetta spilar allt saman.“

Lukka er á því að heils­an sé ekki heppni, held­ur röð ákv­arðana sem fólk tekur  á hverjum degi. Hún segist sjá það enn skýrar þegar hægt er að mæla hluti í gegnum blóðprufur og sjá mun eftir að fólk breytir lífsstílnum. Hún segir frábært að sjá fólk taka við sér eftir að það sér niðurstöður mælinga sinna hjá Greenfit:

„Okk­ur dreym­ir um að hjálpa fólki, hafa áhrif á líf fólks og sjá fólk ná mark­miðum sem það dreymdi ekki um að væru mögu­leg. Fyrst var ég svolítið á því að það sem við erum að gera hjá Greenfit ætti að vera hluti af heilsugæslunni í landinu, en ég er aðeins búin að skipta um skoðun. Það er allt í lagi að það sé búið til eins konar kerfi sem er meira í forvörnum og er þá fyrir utan heilbrigðiskerfið. Svolítið eins og að jákvæð sálfræði er annað en að laga geðsjúkdóma. Heilbrigðiskerfið er í raun og veru sjúkdómakerfi og það er í sjálfu sér allt í lagi. Að það kerfi taki við fólki þegar það er orðið veikt.  Það mætti líka kalla það lækningakerfi og það sem við erum að gera er þá meira forvarnarkerfi. En það er frábært að sjá hve mörg fyrirtæki eru að taka við sér í því að bjóða starfsmönnum upp á þjónustuna okkar, þar sem fólk fær að vita hvar það getur byrjað að laga sjálft lífsstílinn áður en það sem er í ólagi er gengið of langt.“

Þegar Lukka stofnaði veitingastaðinn Happ hélt hún því fram að það mætti verj­ast ýms­um kvill­um og jafn­vel snúa við lífs­stíl­stengd­um sjúk­dóm­um með mataræði og breytt­um lífs­stíl. Henni er sérlega minnisstætt þegar starfsmaður Heil­brigðis­eft­ir­lits Reykja­vík­ur ávítti hana fyrir að halda þessu fram á heimasíðu veitingastaðarins:

„Þau sögðu ekki leyfi­legt að halda slíku fram. Jafnvel þó að þetta væri bara mín skoðun á vefsíðu míns eigin fyrirtækis. Ég man þegar við ræddum saman fyrir framan veitingastaðinn okkar. Það var maður sem stóð þarna álengdar og heyrði hvað við vorum að segja og hann var læknir á bráðadeild Landsspítalans. Hann stoppaði samtalið okkar og sagðist vera að taka á móti fólki alla daga sem gæti sannarlega gripið inn í og haft áhrif á lífsstílinn. Í dag vit­um við flest að mat­ur­inn er meðferðin og lífs­stíll­inn er lækn­ing­in. En auðvitað getur verið erfitt að samþykkja það að maður þurfi að breyta lífsstílnum sínum, af því að það er ekki alltaf auðvelt. En staðreyndin er bara sú að það sem þú setur ofan í þig er það sem mun byggja upp frumurnar þínar. Það er allt á fullu í frumum líkamans alla daga allan daginn og það er galið að reyna að halda því fram að það sem við setjum ofan í okkur hafi engin áhrif. Ég segi stundum að það sé tvennt sem hafi einna mest áhrif á það hvernig okkur líður. Annars vegar hvað við setjum inn fyrir varir okkar og hins vegar hvað við setjum út fyrir þær, semsagt hvernig við veljum orðin okkar.“

Lukka segist þakklát og ástríðufull í störfum sínum, enda sé fátt meira gefandi en að hjálpa fólki að bæta líf sitt:

„Ég var á krossgötum í lífinu þegar við Már Þórarinsson ákváðum að ráðast í þetta verkefni og auðvitað var það mikil vinna og það þurfti margt að ganga upp. En mín reynsla er sú að maður er oft með mesta kjarkinn þegar maður stendur óvænt á krossgötum. Við unnum baki brotnu að því að láta þetta ganga upp og fyrir mér er þetta besta vinna sem ég gæti hugsað mér. Núna þremur árum eftir stofnun fyrirtækisins erum við að sjá fólk sem hefur öðlast nýtt líf eftir að hafa komið til okkar. Það er ekkert betra en það.“

Þáttinn með Lukku og alla aðra þætti Sölva má nálgast inni á www:solvitryggva.is