Umtalaðasti eftirréttur landsins: Myndir þú borga 890 krónur fyrir þennan?

Óhætt er að segja að einn umtalaðasti eftirréttur landsins þessa dagana sé fáanlegur á veitingastaðnum ROK við Frakkastíg. Rétturinn er í sjálfu sér einfaldur og inniheldur aðeins svartan lakkrís og melónur.

Umræður um réttinn hafa til dæmis skapast í Facebook-hópnum Vegan Ísland þar sem Valgerður Árnadóttir, Pírati og formaður Samtaka grænkera, birti mynd og sló á létta strengi. Hún sagði:

„Ég: Það vantar svo girnilega vegan eftirrétti á veitingastaði!
Rok: Reddað!“

Þá hafa fjörugar umræður um réttinn farið fram á Twitter þar sem mynd af honum birtist fyrst. Óhætt er að segja að þar trúi Twitter-notendum vart eigin augum. Eru sumir á því að þetta hljóti að vera einhvers konar grín.

Einn bendir þó á að á matseðli veitingahússins sé hægt að fá Moet-kampavínsflösku sem er einmitt borin fram með lakkrís og melónum. Ef marka má matgæðingana á Rok virðist það vera frábær blanda sem ekki er ástæða til að efast um. Einn og sér lítur eftirrétturinn kannski ekki út fyrir að vera spennandi, en verðið er 890 krónur.

Í umræðum í Vegan Ísland-grúppunni virðast margir þeirrar skoðunar að vegan-eftirréttir séu stundum ekki upp á marga fiska. „Fékk einu sinni banana, ananas og bláber í eftirrétt á fínum veitingastað þar sem ég lét vita með viku fyrirvara að ég væri að koma,“ segir til dæmis í einni frásögninni um ónefndan veitingastað. Viðkomandi bætti svo við:

„Fékk fyrst súkkulaðiköku og spurði hvort hún væri vegan og þjónninn fór að athuga það. Korteri seinna fékk ég þessa litlu skál með ávöxtunum. Vorum með fyrirfram pantaðan óvissumatseðil.“