Um 4700 atkvæði greidd í prófkjöri Sjálfstæðismanna í Kraganum: Sitjandi þingmenn í efstu sætunum

Prófkjöri Sjálfstæðismanna í Suðvesturkjördæmi lauk nú klukkan 18 í dag en prófkjörið hófst síðastliðinn fimmtudag. Alls voru um 4700 manns sem greiddu atkvæði í prófkjörinu í ár en tólf frambjóðendur sóttust þar eftir sex efstu sætunum á lista Sjálfstæðisflokksins fyrir komandi Alþingiskosningar.

Fyrstu tölur úr prófkjörinu liggja nú fyrir og líkt og við var að búast er Bjarni Benediktsson, formaður flokksins og efnahags- og fjármálaráðherra efst á lista, með 1169 atkvæði í fyrsta sæti af þeim 1419 atkvæðum sem þegar hafa verið talin.

Á eftir Bjarna koma þrír aðrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins, Jón Gunnarsson í öðru sæti, Bryndís Haraldsdóttir í þriðja, og Óli Björn Kárason í því fjórða.

Athygli vekur að nýliðarnir Arnar Þór Jónsson og Sigþrúður Ármann virðast ekki vera að ná þeim árangri sem að var stefnt en þau skipa fimmta og sjötta sætið á listanum.

Í heildina kusu um 4700 manns í prófkjörinu og er von á næstu tölum klukkan 21:00 í kvöld.

Fyrstu tölur í Suðvesturkjördæmi:

  • Í 1. sæti með 1169 atkvæði í 1 sæti er Bjarni Benediktsson
  • Í 2. sæti með 371 atkvæði í 1-2 sæti er Jón Gunnarsson
  • Í 3. sæti með 474 atkvæði í 1-3 sæti er Bryndís Haraldsdóttir
  • Í 4. sæti með 587 atkvæði í 1-4 sæti er Óli Björn Kárason
  • Í 5. sæti með 696 atkvæði í 1-5 sæti er Arnar Þór Jónsson
  • Í 6. sæti með 787 atkvæði í 1-6 sæti er Sigþrúður Ármann