Tommi á Búllunni vill að Guð­mundi Frank­lín verði borgað fyrir að hætta við fram­boð

25. maí 2020
12:31
Fréttir & pistlar

Tómas A. Tómas­son, betur þekktur sem Tommi á Búllunni, stingur upp á því að Guð­mundi Frank­lín Jóns­syni for­seta­fram­bjóðanda verði boðnar 145 milljónir króna fyrir að hætta við fram­boð sitt til for­seta.

Tommi er pistla­höfundur á vef Ei­ríks Jóns­sonar og fjallar nýjasti pistill hans um ein­vígi Guðna Th. Jóhannes­sonar og Guð­mundar Frank­líns Jóns­sonar.

„Skil ekki alveg hvað Guð­mundur er að fara með þessu fram­boði sínu. Það hefur aldrei gerst að sitjandi for­seti tapi kosningu. En hann hefur lagt sig allan fram og komið með nógu marga með­mælendur til að upp­fylla skil­yrðin til að vera kjör­gengur,“ segir Tommi sem bætir við að Guðni hafi lýta­lausan feril í em­bætti og ó­um­deilan­lega maður fólksins.

Tommi hvetur Guð­mund til að hætta við fram­boð og spara þjóðinni 400 milljónir króna.

„Ef ekki að þá verði honum boðnar kr. 145.000.000, sem er ein milljón Banda­ríkja­dollara, gjald­miðill sem hann þekkir, og hann beðinn um að hætta við. Þá sparar þjóðin samt kr. 265.000.000. Gerði hann það fengi hann lítið prik,“ segir hann.

Pistil Tomma má lesa í heild sinni hér.