Tómas minnist góðs vinar: „Gunnar skilur eftir sig stórt og vand­fyllt skarð“

„Gunnar var sér­lega far­sæll skurð­læknir, enda hand­laginn, lausna­miðaður og fljótur að hugsa. Hann var ham­hleypa til vinnu og verkk­víði var honum al­gjör­lega framandi,“ segir Tómas Guð­bjarts­son læknir í minningar­grein um vin sinn, Gunnar Mýr­dal sem lést þann 10. septem­ber síðast­liðinn.

Gunnar var læknir, sér­fræðingur í brjóst­hols­skurð­lækningum og yfir­læknir Hjarta- og lungna­deildar Land­spítalans, en hann lést eftir harða bar­áttu við krabba­mein. Gunnar var fæddur 11. apríl árið 1964 en fjöl­margir minnast hans í Morgun­blaðinu í dag, þar á meðal Tómas.

„Það var mikið á­fall að frétta af frá­falli sam­starfs­fé­laga míns og vinar, Gunnars Mýr­dals, yfir­læknis á hjarta- og lungna­skurð­deild Land­spítala, enda Gunnar á besta aldri og á há­tindi ferils síns. Báðir vorum við í hópi hátt í 200 nema sem þreyttu sam­keppnis­próf, nu­merus clausus, við lækna­deild Há­skóla Ís­lands árið 1985. Að­eins 30 komust á­fram og var ár­gangurinn því ó­venju fá­mennur,“ segir Tómas í minningar­grein sinni.

Hann segir að fá­mennur ár­gangur hafi þó að­eins verið til að þétta hópinn og átt sinn þátt í að byggja upp góða stemningu sem hélst í gegnum sex ára lækna­nám og vina­bönd sem hafa haldist fram á þennan dag.

„Á þeim tæpu þrjá­tíu árum sem liðin eru frá braut­skráningu hópsins árið 1991 höfum við oft hist og gert okkur glaðan dag saman. Gunnars verður sárt saknað á sam­komum hópsins í fram­tíðinni. Strax á fyrsta ári náðum við Gunnar vel saman og fylgdumst oft að í hóp­vinnu og verk­legum æfingum. Hvorugan okkar grunaði þá að síðar ættum við báðir eftir að fara í skurð­lækningar og starfa þar hlið við hlið árum saman innan hjarta- og lungna­skurð­lækninga,“ segir Tómas sem segir að Gunnart hafi verið sér­lega far­sæll skurð­læknir.

„Auk þess hafði hann gaman af stjórnun og sótti sér menntun á því sviði og var lunkinn í mann­legum sam­skiptum. Honum var því falið að stýra hjarta- og lungna­skurð­deildinni á há­skóla­sjúkra­húsinu í Upp­sala og síðar deildinni á Land­spítala sem yfir­læknir. Eftir kandidatsár og nokkur ár sem deildar­læknir hér heima hélt hann í sér­nám í al­mennum skurð­lækningum til Västerås í Sví­þjóð. Hjarta- og lungna­skurð­lækningar toguðu sterkt í hann og því færði hann sig um set til Upp­sala. Þar lauk hann sér­fræði­prófi en náði sam­hliða klínísku sér­námi að stunda rann­sóknir og verja doktors­rit­gerð um lungna­krabba­mein við Upp­sala­há­skóla. Smám saman beindist á­hugi hans að flóknum hjarta- og ós­æðar­að­gerðum en einnig notkun hjálpar­hjarta.“

Tómas segir að þessi dýr­mæta reynsla hafi átt eftir að koma sér vel þegar hann á­kvað að snúa heim til Ís­lands og bætast í hóp fimm hjarta- og lunga­skurð­lækna á Land­spítalanum.

„Sjálfur hafði ég flust heim nokkrum árum áður og tókum við fljót­lega upp fyrri kynni úr lækna­deild. Aldrei bar skugga á sam­starf okkar og ég minnist sam­starfs okkar á síðast­liðinn ára­tug með mikilli hlýju og eftir­sjá. Söknuður bekkjar­fé­laga okkar úr lækna­deild er mikill en sömu­leiðis sam­starfs­manna á Land­spítala, enda skilur Gunnar skilur eftir sig stórt og vand­fyllt skarð í fá­mennu teymi hjarta- og lungna­skurð­lækna á Land­spítala. Missir fjöl­skyldu hans er þó lang­mestur, ekki síst Ingi­bjargar eigin­konu hans og barnanna sjö, sem frá fyrsta degi hafa stutt Gunnar dyggi­lega í snörpum og ill­vígum veikindum hans. Minningin um góðan fé­laga og vin mun lifa,“ segir Tómas sem skrifar greininga fyrir hönd út­skriftar­ár­gangs 1991 úr lækna­deild HÍ.

Út­för Gunnars fer fram frá Hall­gríms­kirkju í dag.