Töfrandi tómatsúpa og gratínerað hvítlauksbrauð úr smiðju Berglindar

Þessi árstími kallar á heitar ljúffengar súpur sem gleðja bæði líkama og sál. Hér er ein ljómandi góð tómatsúpa úr smiðju Berglindar Hreiðarsdóttir köku- og matarbloggara með meiru sem heldur úti síðunni Gotterí og gersemar. „Það er ekta súputími þessar vikurnar og ég gerði nokkrar súputilraunir og þessi er ein þeirra. Það er eitthvað svo notalegt að fá sér heita súpu og gott meðlæti í svona myrkri og kulda,“ segir Berglind um þessa undursamlegu súpu. Við getum vel mælt með þessari á fallegu fimmtudagskvöldi og upplagt að kveikja á kertum og njóta samverustundarinnar við matarborðið.

M&H Tómatsúpa BH 2.jpg

Töfrandi og ljúffeng tómatsúpu er dásamlegur kvöldverður á fallegu vetrarkvöldi. Myndir/ Berglind Hreiðarsdóttir.

Tómatsúpa

Fyrir 4-5.

  • 1 laukur (saxaður)
  • 2 gulrætur (saxaðar)
  • 2 hvítlaukrif (söxuð)
  • 50 ml Muga rauðvín
  • 40 g hveiti
  • 100 g Hunt‘s tómatpúrra
  • 300 ml vatn
  • 2 x dós (411 g) af Hunt‘s tómötum (Basil-Garlic-Oregano)
  • 300 ml rjómi
  • 1 msk. söxuð basilíka
  • 1 msk. Oscar grænmetiskraftur (duft)
  • 30 g smjör
  • Salt, pipar og hvítlauksduft
  • Sýrður rjómi, pipar og söxuð basilíka sem „topping“
  1. Steikið lauk, gulrætur og hvítlauk við meðalhita upp úr smjörinu þar til mýkist, kryddið eftir smekk.
  2. Hækkið hitann, hellið rauðvíninu yfir grænmetið og hrærið þar til það hefur að mestu gufað upp.
  3. Bætið þá hveitinu á pönnuna og hrærið vel, næst má setja tómatpúrruna og hræra saman og þá vatnið, hrærið áfram vel.
  4. Báðar dósir af tómötum mega fara saman við ásamt rjómanum, krafti, basilíku og svo má krydda eftir smekk og smakka til.
  5. Leyfið að malla í um 30 mínútur við vægan hita, hrærið í af og til.
  6. Maukið síðan súpuna með töfrasprota eða í blandara að 30 mínútum liðnum og toppið með sýrðum rjóma, basilíku og pipar.
  7. Gott er að útbúa hvítlausbrauðið á meðan súpan mallar, ganga frá og leggja á borð.

Gratínerað hvítlauksbrauð

  • 1 hvítt snittubrauð (niðurskorið)
  • 100 g smjör við stofuhita
  • 2 hvítlauksrif (rifin)
  • 1 msk. söxuð steinselja
  • Rifinn ostur
  • Gróft salt
  1. Hitið ofninn í 200°C.
  2. Stappið smjör, hvítlauk og steinselju saman.
  3. Smyrjið vænu lagi yfir hverja brauðsneið (um 1 tsk), setjið rifinn ost yfir, smá salt og bakið í um 5 mínútur.

Berið fram á aðlaðandi hátt og gleðjið augað. Njótið vel.

*Allt hráefnið nema rauðvínið fæst í Bónus.