Tími hins ómögulega

Fyrir tíu árum, nánast upp á dag, heimsótti ég Stríðsminjasafnið í London. Þar stóð yfir sýningin „Matarmálaráðuneytið“ sem fjallaði um skömmtun matvæla í Bretlandi í heimsstyrjöldinni síðari. Matarskömmtun hófst í Bretlandi 8. janúar 1940 og lauk henni ekki fyrr en 30. júní 1954 þegar höft á kjötsölu voru afnumin. Sérstöku matarmálaráðuneyti var falið hið flókna verk að útfæra skömmtunina og stýra dreifingu matvæla svo fæða mætti heila þjóð á viðsjárverðum upplausnartímum.

Í fyrstu vöktu höftin reiði, einkum í fjölmiðlum. „Það á að skammta okkur smjör!“ skrifaði dagblaðið Daily Mail. „Sjálfur Göbbels hefði ekki getað látið sér detta í hug áróður sem ylli Bretlandi jafnmiklum skaða.“

Í apríl 1940 var kaupsýslumaður sem ekki hafði starfað við stjórnmál áður gerður að matvælaráðherra. Woolton lávarðar beið mikil áskorun en fyrir stríð framleiddu Bretar innan við þriðjung af þeim mat sem þeir neyttu. Woolton dó ekki ráðalaus.

Stjórnvöld hvöttu fólk til að breyta blómabeðum húsagarða í grænmetisreiti. Almenningsgarðar voru teknir undir grænmetisrækt. Sjálfboðaliðar hjálpuðu við landbúnað. Skorin var upp herör gegn matarsóun. Woolton hugðist ekki aðeins koma í veg fyrir sult heldur vildi hann tryggja að mataræði Breta yrði aldrei svo einhæft að það kæmi niður á baráttuþreki fólks. Stjórnvöld sendu frá sér uppskriftir, auglýsingar og stuttmyndir um mat, næringu og nýbreytni í eldhúsinu. „Woolton grænmetisbakan“ naut hylli í heimahúsum og á veitingastöðum.

Woolton hafði löngum verið baráttumaður gegn misskiptingu. Matarskömmtun hans byggði á jafnræði óháð efnahag. Börn fengu ókeypis appelsínudjús, þorskalýsi, heita máltíð í skólum og mjólk. Ótrúlegt en satt batnaði almenn heilsa í Bretlandi í ráðherratíð Woolton; hinir ríku og holdugu grenntust en þeir mögru og efnaminni gildnuðu.

Woolton ávarpaði almenning af hreinskilni á reglulegum blaðamannafundum, greindi frá stöðu mála og lagði sig fram um að viðurkenna og leiðrétta mistök þegar ráðuneyti hans brást bogalistin. Matarmálaráðuneytið fór úr því að vera óvinsælasta ráðuneyti landsins í það vinsælasta. Svo dáður varð Woolton að almenningur tók að kalla hann „Fred frænda“.

Mannleg hugvitssemi

Þar sem ég gekk um sýningu Stríðsminjasafnsins og virti fyrir mér skömmtunarbækur, áróðursplaköt og uppskriftabækur taldi ég mig skoða horfinn heim; veruleika sem aldrei gæti orðið aftur. En runninn er upp tími hins ómögulega.

Ég bý í Bretlandi. Við upphaf vikunnar gáfu bresk stjórnvöld út þau tilmæli að til að hefta útbreiðslu COVID-19 yfirgæfi fólk ekki heimili sín nema í brýnustu neyð. Faraldrinum er gjarnan líkt við stríðsástand og varð íbúum fljótt ljóst að rétt eins og við upphaf heimsstyrjaldarinnar síðari yrði ein helsta áskorun almennings á þessum fordæmalausu tímum að verða sér úti um mat. En ekki leið á löngu uns hugvitssemin lét á sér kræla.

Á örfáum dögum voru íbúar í hverfum um allt land farnir að hjálpast að við að tryggja að allir hefðu aðgang að matvælum. Inn um póstlúgur eldri borgara tóku að berast símanúmer sjálfboðaliða sem voru til í að skjótast út í búð fyrir þá. Í blokkinni minni skiptast íbúar á um að fara út í búð fyrir nágranna í sóttkví. Hillur verslana eru stundum tómlegar og er orðið nánast ómögulegt að panta heimsendingar hjá stórmörkuðum á Internetinu. Komist nágranni yfir slíkan munað lætur hann boð út ganga svo að hann geti pantað hluti sem eru ófáanlegir í hverfisverslunum fyrir þá sem vantar. Verslanir deila með viðskiptavinum ráðleggingum um hvernig minnka megi matarsóun. Kokkurinn Jamie Oliver er með daglegan sjónvarpsþátt þar sem hann kennir fólki að elda í faraldri.

Á tímum hins ómögulega er það mannleg hugvitssemi sem gerir okkur mögulegt að feta áfram veginn í átt að nýjum hversdagsleika handan yfirstandandi hremminga.

Birtist fyrst á vef Fréttablaðsins.