Til hvers eru þessar Eldhússdagsumræður?

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, skrifar:

Til hvers eru þessar Eldhússdagsumræður á þinginu. Ekki eru þær til að létta lund þjóðarinnar. Stjórnarandstaðan var í eintómri sýndarmennsku, sem eru að vísu ekki nýmæli. Það er svo sem í lagi ef ekki hefðu verið endurteknar sömu ræðurnar og hafa verið fluttar í allan vetur í beinni útsendingu. Eina sem kom aðeins á óvart er að upphlaupsliðið, sem heldur að það tilheyri frjálslyndum umbótaöflum, talaði eins og gamlir byltingasinnaðir kommúnistar. Kannski verður fólk svona þegar það hefur þurft að sitja undir linnulausum árásum og aðför miðaldra karla.

Sumir voru svo úr tengslum við raunveruleikann að þeir halda að við núverandi aðstæður sé hægt að hækka bætur og laun um tugi prósenta og jafnvel á sama tíma afleggja tryggingargjald með öllu, sem þó stendur undir bótum almannatrygginga. Ég vona að hinn þögli meirihluti þjóðarinnar hafi haft úthald til að horfa á Eldhúsdaginn til enda.