Þrautseigja Önnu skilaði ótrúlegum árangri í marsmánuði

Anna Kristjánsdóttir, vélstjóri og íbúi á Tenerife, hefur náð eftirtektarverðum árangri í lífsstílsbreytingu sem hún tók sér fyrir hendur í byrjun árs. Anna hefur haldið fylgjendum sínum á Facebook upplýstum um gang mála og er óhætt að segja að hlutirnir hafi gerst í nýliðnum marsmánuði.

Anna hafði sett sér markmið um að léttast um 22 kíló á þessu ári og þann 1. mars síðastliðinn var hún vel á áætlun í þeim efnum. Þá hafði hún lést um 8,9 kíló á árinu. Í uppgjöri marsmánaðar sem Anna birti í morgun kemur ýmislegt áhugavert í ljós.

„Hér með tilkynnist að markmiði marsmánaðar er náð, ekki aðeins marsmánaðar heldur einnig aprílmánaðar. Ég setti mér það markmið að ná að komast undir 88 kg fyrir 1. apríl og síðan 86 kg fyrir 1. maí. Að morgni 1. apríl reyndist ég vera 85,7 kg. Ég var búin að ná markmiði aprílmánaðar og apríl rétt að byrja,“ segir Anna.

Hún kveðst ánægð með sjálfa sig – enda má hún vera það – en bendir á að þetta voru ekki einu afrek mánaðarins.

„Í janúar gekk ég 176,05 km, í febrúar gerði ég betur og gekk 258,1 km. Í mars gekk ég 293,66 km. Það sem af er árinu er ég því búin að ganga samanlagt 727,81 km og held hröðum skrefum suður Austfirðina.“

Anna hefur verið dugleg að hreyfa sig á Tenerife og farið í ófáar fjallgöngurnar undanfarnar vikur. Þá bendir Anna á að hún hafi ekki borðað pizzu það sem af er þessu ári og ekki drukkið bjór síðan 29. janúar.

„Til að verðlauna mig verður hvorutveggja gert í kvöld, drukkinn bjór og borðuð pizza (bannað að segja Guðna frá uppáhaldspizzunni minni sem heitir Hawaii). Nautakjötið sem er fyrst og fremst prótein og fita og því mjög heilnæmt, verður að bíða morgundagsins,“ segir Anna sem hefur sett sér ný markmið fyrir aprílmánuð.

„Að morgni 1. maí skal þyngdin vera komin niður í 83,9 kg eða 1,8 kílóa minnkun og síðan 82,4 kg í byrjun júní og að sjálfsögðu skulu fylgja myndir af árangrinum.“

Dagur 2.230 – Markmiði náð! Hinn 1. mars síðastliðinn birti ég mynd af vigtinni minni og lofaði jafnframt að birta aðra...

Posted by Anna Kristjánsdóttir on Fimmtudagur, 1. apríl 2021