Þráinn ó­sáttur við okrið: Tvær and­lits­grímur á dag kosta 73.500 krónur á mánuði

Þráinn Bertels­son, rit­höfundur og fyrr­verandi Al­þingis­maður, segir að það sé langt síðan heilsu­bransinn gafst upp á sam­úð og sneri sér að því að græða peninga.

Þráinn vekur at­hygli á verðinu á and­lits­grímum á Face­book-síðu sinni og þykir honum nóg um. Eins og kunnugt er þarf nú að bera and­lits­grímur þegar ekki er hægt að tryggja tveggja metra ná­lægðar­tak­mörk. Á þetta til dæmis við í al­mennings­sam­göngum svo dæmi sé tekið.

Þráinn bendir á dæmi um verð á svo­kölluðum FFP2 grímum í til­tekinni heilsu­vöru­verslun. Þar er hægt að fá tvær ein­nota grímur til að hylja öndunar­færin fyrir 2.450 krónur. Stykkið er því á 1.225 krónur.

„Þannig að tvær á dag á hvern fjöl­skyldu­með­lim kosta ekki nema 73.500 kr. á mánuði. Ef maður notar þrjár á dag þá rétt losar það hundrað­þúsund­kallinn. Og árs­birgðir fyrir einn kosta þá ekki nema rúma milljón. Fyrir stórar fjöl­skyldur þar sem allir fjöl­skyldu­með­limir vilja lifa af pestina verður þetta hins vegar soldið dýrara.“

Svo virðist vera sem verðið á um­ræddum FFP2 grímum, sem teljast mjög öruggar, sé víða í kringum þúsund krónurnar stykkið.

Það vakti tals­verða at­hygli fyrir helgi þegar greint var frá skyndi­legri verð­hækkun á and­lits­grímum í verslun Lyfja og heilsu. Á fimmtu­dag hafi við­skipta­vinur verslunarinnar í Firðinum greitt 210 krónur fyrir and­lits­grímu klukkan 13:09 en 23 mínútum síðar hafi verðið verið komið upp í 498 krónur. Inn­kaupa­stjóri Lyfja og heilsu hafnaði því að verðið hafi verið hækkað heldur hafi verið um að ræða tvær ó­líkar vörur. Sú ódýrari hafi verið fljót að seljast upp.

Face­book-færsla Þráins vakti nokkra at­hygli og í um­ræðum var bent á að víða væri grímum út­hlutað ó­keypis. Þráinn sagðist ekki hafa nokkurn skapaðan hlut á móti því að borga fyrir það sem hann kaupir. „En mér finnst fá­rán­legt að þurfa að borga okur­verð fyrir eitt­hvað sem mér er skipað að kaupa,“ segir hann.

Þráinn segir enn fremur að ríkið ætti að af­henda þeim grímur sem þurfa á að halda en geta ekki nálgast þær upp á eigin spýtur af ein­hverjum á­stæðum.

„Sjálf­bjarga fólk á að sjá um sig sjálft, en þegar fyrir­mæli koma frá ríkinu um að öllum beri að nota grímu á ríkið að sjá til þess að sið­blindingjar grípi ekki tæki­færið til að okra á fólki. Þannig lít ég nú á málin.“