Þorsteinn segir Guðna hafa snuprað Katrínu – Segir hana skulda þjóðinni skýringar

„Það er fremur súrt í broti fyrir Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra að koma á þessum þjóðhátíðardegi fram fyrir þjóðina og skýra hvers vegna fjögurra ára vinna við áfangaskipta endurskoðun stjórnarskrárinnar undir hennar forystu fór út um þúfur.“

Þetta segir Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra, í grein sinni í Fréttablaðinu í dag þar sem hann skrifar um stjórnarskrármálið. Hann segir að Alþingi hafi haft nægan tíma til að klára málið en þegar til kastanna kom hafi Katrín ekki treyst sér til að láta málið koma til atkvæða á Alþingi. Þá hafi verið fallið frá fyrri ákvörðun ríkisstjórnarinnar um sérstakt þinghald í ágúst til þess að fjalla um stjórnarskrána. Því viti í raun enginn hver raunveruleg afstaða Alþingis er.

„Það er stjórnarmeirihlutinn sem ræður því hvort mál komast úr þingnefnd til umræðu og atkvæðagreiðslu á Alþingi. Hann kaus að drepa málið í nefnd. Fyrir lá að Framsókn studdi frumvarpið óbreytt, en afstaða Sjálfstæðisflokksins var já, já og nei, nei. Ef Sjálfstæðisflokkurinn hefði verið með hefði forsætisráðherra ekki aðeins haft einfaldan meirihluta heldur aukinn meirihluta, því að Miðflokkurinn gat stutt málið og Viðreisn, að auðlindaákvæðinu frátöldu. Tímaskorti var ekki um að kenna því að fyrir lá að stjórnarandstaðan ætlaði ekki að beita málþófi. Ábyrgð ríkisstjórnarmeirihlutans á strandsiglingunni er því alveg skýr,“ segir Þorsteinn meðal annars.

Hann segir að samt tali Katrín eins og óljós og óskilgreind andstaða á Alþingi hafi stöðvað málið. Staðreyndin sé samt sú að engir aðrir en hún og stjórnarmeirihlutinn beri ábyrgð á Alþingi fékk ekki að taka afstöðu.

Þorsteinn segir enn fremur að ánægjulegt hafi verið að sjá Guðna Th. Jóhannesson, forseta Íslands, stíga fram á umræðusviðið.

„Hann átaldi Alþingi fyrir sleifarlag. Það var réttmæt gagnrýni. Forseti þekkir vel lögmál þingræðisskipulagsins og reglur þingskapa. Hann veit því að villandi er að saka Alþingi í heild um að hlaupast undan merkjum þegar stjórnarmeirihluti kemur í veg fyrir að mál sé afgreitt úr nefnd og komi til atkvæða. Ekki verður því annað ráðið en forseti sé undir rós að setja ofan í við forsætisráðherra sinn og samstarfsflokka hans.“

Þorsteinn segir að gagnrýni Guðna virðist fyrst og fremst beinast að málsmeðferðinni á Alþingi sem forsætisráðherra ber ábyrgð á.

„En það var líka efnislegur ágreiningur, einkum um eitt grundvallaratriði. Fyrir síðustu kosningar boðuðu sex flokkar að nýtingarréttur auðlinda í þjóðareign skyldi vera tímabundinn. Þeir fengu tvo þriðju atkvæða. Framsókn og VG féllu frá þessari stefnu til að koma til móts við samstarfsflokkinn. Flokkur fólksins, Píratar, Samfylking og Viðreisn hvikuðu hins vegar ekki frá henni.“

Segir Þorsteinn ósennilegt að forseti hafi ætlað að áfellast stjórnarflokkana fyrir þessa málamiðlun. Þá væri fjarstæðukennt að gefa í skyn að hann hafi ætlast til að stjórnarandstöðuflokkarnir fjórir ættu að svíkja afdráttarlaus loforð við kjósendur um slíkt prinsippmál.

„Forseti Íslands blandar sér að sjálfsögðu í pólitík telji hann það nauðsynlegt. Þegar það gerist er þó æskilegt að hann sé skýrmæltur en ekki loðinn. Ólafur Ragnar Grímsson tætti í sig fyrirliggjandi stjórnarskrártillögur í þingsetningarræðu 2015. Hvað sem um þá ræðu má segja var afstaða hans til einstakra efnisatriða klár og ekki fór á milli mála hverja hann gagnrýndi.

Þorsteinn segir að Katrín skuldi þjóðinni svör.

„Spurningin, sem forsætisráðherra skuldar þjóðinni svar við, er þessi: Hvers vegna leyfði stjórnarmeirihlutinn ekki Alþingi að greiða atkvæði? Það var eina leiðin til að ljúka málinu með lýðræðislegum hætti. Vel hefði farið á því að forseti hefði með berum orðum mælst til þess við forsætisráðherra sinn að leyfa lýðræðinu að hafa eðlilegan framgang.“

Þorsteinn segir að skýringin á afstöðu meirihlutans blasi við; stjórnarskrárbreytingar kalli á endurstaðfestingu á nýju þingi og kosningarnar hefðu því jafnframt orðið þjóðaratkvæði um innihald auðlindaákvæðis, sem veitir einni atvinnugrein undanþágu frá meginreglunni um tímabundinn nýtingarrétt.

„Í reynd hefðu þær orðið þjóðaratkvæði um stjórnarskrárvarða almannahagsmuni eða sérhagsmuni? Á endanum virðast ríkisstjórnarflokkarnir ekki hafa treyst kjósendum til að fylgja sérhagsmunalínunni. Um leið voru kjósendur sviptir tækifæri til að gera út um mál, sem fyrir löngu er komið á tíma.“