Þór­lindur: Hæpið að skrímsla­væða lög­regluna – „Þarf virki­lega að fara í þessar skot­grafir?“

„Þrátt fyrir jarð­skjálfta, far­sóttir og veður­ofsa mætti ætla að það merki­legasta sem gerst hafi á Ís­landi í vikunni tengist merkjum sem lög­reglu­þjónn hafði á búningi sínum fyrir þremur árum,“ segir Þór­lindur Kjartans­son, hag­fræðingur og pistla­höfundur, í Frétta­blaðinu í dag.

Í grein sinni segir Þór­lindur að hann hafi átt erfitt með að temja sér þá tísku tíðar­andans að móðgast fyrir hönd annarra. Þó sé ekki þar með sagt að hann geti ekki reiðst yfir ó­rétti sem aðrir eru beittir. Það geti hann sannar­lega gert og finnst mikil­vægt að sem flestir geri.

„Þó er það orðið býsna al­gengt að fremur smá­vægi­legur fóta­skortur á tungu eða penna geti leitt til þess að jafn­vel hið grand­varasta fólk fái yfir sig yfir­gnæfandi hneykslunar­öldu og sé jafn­vel bann­fært,“ segir Þór­lindur sem nefnir merkja­málið sem kom upp í vikunni í þessu sam­hengi.

„Ekkert hefur komið fram sem bendir til annars en að sú með merkin sé hin á­gætasti vörður laganna. Hún var reyndar svo ó­heppin að verða fyrir linsu ljós­myndara við störf sín fyrir þremur árum og lenda í mynda­banka dag­blaðs. Við nánari at­hugun hefur komið í ljós að þessi lög­reglu­þjónn bar merki sem mörgum þykja býsna ó­smekk­leg og myndu klár­lega vekja óhug ef rök­studdur grunur væri um að hún væri ekki vönd að sinni virðingu í starfi.“

Þór­lindur segir að hjá flestum sem taka þátt snúist stormurinn ekki á nokkurn hátt um störf hennar eða ís­lensku lög­reglunnar. „Þar má vafa­laust mjög margt bæta—en heilt yfir þá virðist hæpið að ætla að á­stæða sé til þess að skrímsla­væða ís­lensku lög­regluna, jafn­vel þótt víða í Ameríku sé mikið um fauta í löggu­búningum.“

Þór­lindur spyr hvort það sé ekki lík­legri skýring að um van­g­á og hugsunar­leysi hafi verið að ræða.

„Það þarf enginn að kalla neinn ras­ista og enginn ætti að þurfi að bera af sér sakir um að vera ras­isti. Með ein­faldri á­bendingu um að þessi merki geti túlkast sem meiðandi þá hefði verið hægt að segja bara „sorrí, takk fyrir á­bendinguna, ég tek þetta niður“ og allir hefðu getað haldið á­fram reynslunni ríkari. Og kommon, þing­maðurinn sem fer fremst í flokki hinna hneyksluðu á ekki að þurfa að svara á­skorunum um af­sögn,“ segir Þór­lindur sem endar grein sína á þessum orðum:

„Þarf virki­lega að fara í þessar skot­grafir út af máli þar sem eðli­legast hefði verið að reyna tala saman í ró­leg­heitum og segja svo: „Höfum við ekki um svo margt mikil­vægara að hugsa? Og erum við þá ekki bara góð?““