Þorgrímur varpar sprengju: „Þetta væri barnaþrælkun í dag“ – Langar ekki að drekka áfengi

Þorgrímur Þráinsson er gestur Sigmundar Ernis í nýjasta þætti Mannamáls á sjónvarpsstöð Hringbrautar. Þar ræddu þeir hin ýmsu mál enda Þorgrímur komið víða við, bæði sem rithöfundur sem og í gegnum knattspyrnuferil sinn.

Þeir sem eldri eru muna væntanlega eftir herferðinni sem Þorgrímur fór í gegn reykingum hér um árið enda er hann þekktur fyrir stuðning sinn við heilbrigðan lífsstíl. Þá hefur hann lengi haldið fyrirlestra í grunnskólum landsins þar sem hann prédikar slíkt, ásamt því að krakkar einbeiti sér að því að vinna í sjálfum sér.

Hann talar mikið fyrir því að krakkar taki sér pásur frá símum, fari út úr húsi og leiki sér í náttúrunni, lesi bækur og opni hugann.

Þá segir hann frá því að ein besta minning hans úr æsku hafi verið úr hörku vinnu í frystihúsi á Ólafsvík þar sem hann ólst upp. Það væri einfaldlega kallað barnaþrælkun í dag:

„Veistu það, ég á svo mörgum margt að þakka. Til dæmis bara maður sem rak Bakka frystihúsið, Gylfi Magg. Við fengum vinnu hjá honum öll sumur og þegar það kom mikill afli á land í Ólafsvík, þá var skólanum lokað. Við 12 ára fórum í frystihúsið klukkan átta að morgni, unnum til tíu að kvöldi, dag eftir dag, þreytt með blauta hanska. Þetta væri barnaþrælkun í dag, en þetta er besti skóli sem ég hef gengið í gegnum.“

Þorgrímur er þekktur fyrir bindindismennsku sína og skefur ekkert af því að hann hafi hreinlega ekki áhuga á því að fá sér í glas. Hann segist fá reglulega spurningar hvers vegna hann drekki ekki áfengi.

„Ég varð nánast fyrir einelti sem ungur maður úti á lífinu, allir að bjóða mér í glas og ég sagði alltaf bara nei takk. Ég hefði örugglega verið hugrakkari, átt kærustur og gert einhverja vitleysu ef ég hefði verið að nota áfengi. Ég tók bara ákvörðun, ég veit ekki hvenær það var,“ segir Þorgrímur.

Hann bætti við: „Þegar ég fór að horfa upp á vini mína unga að aldri, ég var að keyra þá heim, hátta þá, svæfa þá og svo vöknuðu þeir morguninn eftir og spurðu hvað hefði gerst í gær. Ég nennti ekki að vera þarna.

Hann leggur áherslu á orð sín: „Ég er bara stoltur bindindismaður.“

Þorgrímur hefur látið hafa eftir sér að hann haldi að hann sé skemmtilegur í glasi:

„Ég er ekki frá því. Ég er búinn að lofa, ég má ekki segja frá þessu en ég ætla samt að gera það, að ég er búinn að lofa Guðna Bergs vini mínum að loka okkur einhvern tímann inni í pluss-klæddu herbergi, með eina myndavél og hann ætlar að hella mig fullann og sjá hvað gerist. Ég veit ekki hvað mun gerast,“ segir Þorgrímur og hlær.

Þrátt fyrir þetta hefur Þorgrímur þó smakkað áfengi og jafnvel keypt sér bjórkippur. Hann endar þó alltaf á því að henda þeim enda langar hann ekki að drekka. „Mig langar ekki að vera fullur,“ sagði Þorgrímur ákveðinn.