Þóranna opnar sig: „Þetta er ekki rétt og þetta þarf að laga“

Þóranna Helga Gunnarsdóttir, ekkja Armando Beqirai sem skotinn var til bana fyrir utan heimili sitt í Rauðagerði í febrúar síðastliðnumm er í ítarlegu viðtali við Kompás sem birtist á Vísi í dag.

Þar gagnrýnir hún meðal annars yfirvöld fyrir það að hinn grunaði í málinu, Angelin Sterkaj, hafi fengið að vera á Íslandi þrátt fyrir að hafa verið eftirlýstur í heimalandi sínu. Þá hafi lögregla vitað að hann væri vopnaður skammbyssu ekki löngu áður en morðið var framið.

Haft er eftir Margeiri Sveinssyni, yfirlögregluþjóni hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, að lögregla hafi hafið leit að byssunni en hún ekki fundist. Þóranna er þó gagnrýnin á það að lögregla hafi ekki farið lengra með málið.

„Og vitandi að hann hafi verið eftirlýstur líka í heimalandinu, ég bara skil ekki hvernig þetta líðst. Ég bara skil það ekki," segir Þóranna meðal annars.

Þóranna og Armando kynntust á Grikklandi árið 2004 og gekk það ekki þrautalaust fyrir þau að setjast að hér á landi. Þurftu þau að ganga í hjónaband svo Armando fengi rétt á að búa hér. Á sama tíma hafi Angelin verið eftirlýstur í Albaníu og höfðu albönsk yfirvöld óskað eftir því að hann yrði framseldur til landsins árið 2015. Beiðninni var hins vegar hafnað hér á landi árið 2017.

Í umfjöllun Kompáss er tekið fram að samkvæmt heimildum hafi Angelin framvísað fölsuðu sakavottorði þegar hann sótti um dvalarleyfi hér á landi, en það hafi ekki komið í ljós fyrr en á seinni stigum málsins.

„Það er bara rosalega sorglegt að við getum ekki treyst á framkvæmdavaldið okkar. Við getum ekki treyst því að fólk geti bara komið hérna með dóm á sér og fengið að búa hérna en verið eftirlýst annars staðar. Það er bara ofboðslega sorglegt,“ segir Þóranna sem er ósátt við það hvernig kerfið virkar.

„Það er bara ein ástæða fyrir því að ég er hér. Það er bara fyrir það, þetta er ekki rétt og þetta þarf að laga. Ég ætla bara virkilega að vona að þetta veki upp spurningar hjá fleirum en mér að fólk geti ekki gengið hér inn eftir að hafa framið einhverja hrottalega glæpi,“ segir hún.

Umfjöllun Kompás er hér.