Þór fær hvergi vinnu: Hefur fengið nei við 200 um­sóknum

„Það er hrein­lega frekar ömur­legt að hugsa til þess að þroska­stig ís­lensks at­vinnu­lífs sé ekki meira en svo að það haldi að fólk með sér­fræði­þekkingu sé ó­hæft vegna þess að það hafi komið að stjórn­mála­starfi,“ segir Þór Saari, fyrr­verandi þing­maður, í pistli á Face­book-síðu sinni.

Þar vísar Þór í nýja bók Ó­línu Þor­varðar­dóttur, fyrr­verandi kollega af þinginu, Spegill fyrir Skuggabaldur, en í henni er meðal annars fjallað um þær á­skoranir sem mæta á vinnumarkaði þeim sem hafa tekið þátt í pólitísku starfi. Þór var þing­maður Suð­vestur­kjör­dæmis kjör­tíma­bilið 2009 til 2013 og þekkir hann þessar á­skoranir vel sem Ó­lína lýsir í bók sinni.

„Eins ömur­lega og það hljómar þá gengur fjöldi fólks um göturnar at­vinnu­laust, sumt til lengri tíma, vegna þess að það hefur tekið þátt í stjórn­málum og viðrað stjórn­mála­skoðanir eða aðrar skoðanir sem eru ekki þóknan­legar krón­prinsum at­vinnu­lífsins. Margt af þessu fólki er mjög hæft, með mikla og góða starfs­reynslu og menntun, en ein­hverra hluta vegna fær það hvergi vinnu,“ segir Þór í færslu sinni.

Þór er vel menntaður og lík­lega með betri menntun að bakinu en meðal-Ís­lendingurinn. Hann er B.Sc. próf í markaðs­fræði frá Uni­versity of South Carolina, MA-próf í hag­fræði frá New York Uni­versity og kennara­réttindi fyrir fram­halds­skóla­stig. Þrátt fyrir góða menntun og reynslu hefur Þór komið að lokuðum dyrum á vinnu­markaði eftir að setu hans á Al­þingi lauk.

„Það sem Ó­lína varpar ljósi á er mikil mein­semd því af­leiðingin er ekki bara að fólk veigrar sér við stjórn­mála­þátt­töku og um­ræðu, heldur einnig að tap sam­fé­lagsins er um­tals­vert vegna þeirrar van­nýttu auð­lindar sem þetta fólk er. Að vísu þarf ekki að horfa lengi til fram­göngu Sam­taka at­vinnu­lífsins og dóttur­sam­taka þeirra til að sjá að það er ekki beint hugjón um betra sam­fé­lag sem drífur þau á­fram heldur miklu frekar draumurinn um fasískan ríkis­kapítal­isma, en þetta er samt ó­eðli­legt. Þetta snýst nefni­lega um miklu meira en það hvernig efna­hags­kerfi við viljum búa við, þetta snýst um að frjálsar mann­eskjur geti búið í frjálsu sam­fé­lagi, geti haft skoðana­frelsi og tjáð þær skoðanir opin­ber­lega án þess að gerð sé að­för að af­komu þess. Þetta býr líka til og við­heldur hinni al­ræmdu „klíku­væðingu“ starfa þar sem stjórn­mála­menn „leggja inn“ hverjir hjá öðrum upp á fram­tíðina að gera,“ rekur Þór í færslu sinni.

Hann segir að hann sé sjálfur einn af þessu fólki sem fjallað er um í bók Ó­línu, en hann hefur ekki fengið hefð­bundna launa­vinnu síðan kjör­tíma­bilinu á þingi lauk árið 2013.

„Þegar starfi mínu á Al­þingi lauk átti ég fundi með fram­kvæmda­stjórum þriggja stærstu ráðninga­stofa landsins þar sem ég kynnti mig, lagði fram starfs­ferils­skrána og fór yfir starfs­ferilinn með þeim. Það sem var at­hyglis­vert var að það fyrsta sem þeir sögðu og þeir svöruðu allir nánast því hinu sama: „Þór það er svo skrýtið en hér á landi er al­mennt erfitt fyrir fólk sem hefur verið virkt í stjórn­málum að fá vinnu er starfi þeirra í stjórn­málum lýkur.“

Honum var bent á að þessu væri ein­mitt öfugt farið í ná­granna­löndunum þar sem reynsla af þing­mennsku þykir merki­leg og góð reynsla að búa að.

„Þetta voru orð að sönnu, því síðan þá hef ég fengið um tvö hundruð af­s­vör við um­sóknum um starf. Í mörgum til­fellum hef ég aug­ljós­lega verið hæfasti um­sækjandinn og tafsið, tuðið og blaðrið sem ég hef fengið að heyra, sér­stak­lega frá opin­berum stofnunum, þegar ég hef óskað eftir rök­stuðningi, hefur hrein­lega verið með ó­líkindum. Einna dug­legust er þó Hag­stofan sem hefur verið sér­stak­lega iðin við það undan­farin ár að aug­lýsa stöður og boða fólk í við­töl, en á­kveða svo að „ráða ekki í stöðuna að sinni“,“ segir Þór.

Hann virðist ekki vera einn í þessum sporum því hann segist hafa hitt marga fyrr­verandi kollega af þinginu og staðan hjá mörgum þeirra sé sú sama og hjá honum. Þeir hafi ekki enn fengið neina fasta launa­vinnu og, sem fyrr segir, hefur hann sjálfur fengið 200 nei.

„Skugga­baldrar þeir sem Ó­lína varpar ljósi á eru ekki bara ein­hverjar gamlar leifar kunningja- og klíku­sam­fé­lags sem nú­tíma stjórnunar­hættir al­þjóða­sam­fé­lagsins hefur sigrað, heldur eru þeir enn að og nýjasta og eitt af­kára­legast dæmið er þegar að sjálft fjár­mála­ráðu­neytið kom í veg fyrir að virtur prófessor við Há­skóla Ís­lands til ára­tuga, fengi rit­stjórnar­stöðu við sam­nor­rænt fræði­rit um fjár­mál hins opin­bera,“ segir Þór sem endar færslu sína á þessum orðum:

„Dæmin sem Ó­lína telur upp eru mörg og ó­hugnan­leg og lýsa kerfi sem er al­ger­lega sið­laust og mann­fjand­sam­legt. Kerfi sem mun á­fram við­halda sjálfu sér verði ekkert að gert og svo það fylgi með þá munu Fjór­flokkurinn og SA svo sannar­lega ekki gera neitt í málinu, ef þú lesandi góður ert að velta fyrir þér hvað þarf að gera.“

Ólína Þorvarðardóttir kemur hér fram með bók sem sannarlega tekur á mjög mikilvægu, en jafnframt viðkvæmu og erfiðu...

Posted by Þór Saari on Föstudagur, 9. október 2020