Þolinmæðin þrotin hjá mjög mörgum segir Víðir: „Það er veiran sem er óvinurinn“

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn segir ljóst að margir séu orðnir þreyttir á stöðu mála vegna COVID-19 hér á landi en tæplega eitt og hálft ár er nú liðið síðan veiran kom fyrst upp hér á landi. Delta-afbrigði veirunnar veldur nú miklum usla og er mikill fjöldi fólks að greinast daglega.

„Við finnum það mjög skýrt að þolinmæðin fyrir þessari veiru, og fyrir þessum aðgerðum af þessu stóra verkefni okkar, er þrotin hjá mjög mörgum og maður skilur það alveg en því miður er það bara þannig að við þurfum að halda áfram og það er ekkert annað í stöðunni,“ sagði Víðir á upplýsingafundi almannavarna í dag.

Rúm vika er nú liðin síðan gripið var til 200 manna samkomubanns hér á landi, auk eins metra reglu og grímuskyldu víða. Núverandi reglugerð er í gildi til 13. ágúst næstkomandi en margir hafa gagnrýnt þær takmarkanir sem nú eru í gildi.

„Við þurfum ekkert að vera sammála um allt en markmiðin okkar þurfa að vera skýr,“ sagði Víðir og bætti við að það væri best fyrir alla að ná sem bestum tökum á veirunni og að við lærum að lifa með henni. „Því að það veiran sem er óvinurinn ekki við hvert annað.“

„Það skiptir miklu máli að sýna skoðunum, og mismunandi skoðunum, hvers annars skilning, reyna að setja okkur í spor annarra og skilja þá hvað það er sem býr að baki en fyrst og fremst þurfum við bara að vera almennilegt fólk og vera góð hvert við annað.“

Þá sagði Víðir að helsta markmiðið væri að verja viðkvæmustu hópana og heilbrigðiskerfið. „Við ætlum að leita allra leiða til að koma í veg fyrir að smit berist hérna yfir landamærin og með því að hefta samfélagslegt smit þá ætlum við að reyna að hafa hér eins opið samfélag eins og mögulegt er.“