Þingmannablaður

Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttarlögmaður skrifar:

Á dögunum var skýrt frá því að dómsmálaráðherra hefði falið mér að vinna að tillögum um styttingu málsmeðferðartíma í sakamálum. Þá stigu m.a. fram tvær hetjur í mannlífinu, sem trúað hefur verið fyrir sæti á Alþingi. Þær heita Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir. Töldu þær báðar ámælisvert af ráðherranum að hafa falið mér þetta verkefni, þar sem ég væri sérstakur andstæðingur þolenda kynferðisafbrota. Tveir annmarkar voru á þessum málflutningi. Hugmyndir þeirra um skoðanir mínar á afbrotum í þessum flokki mála eru rangar auk þess sem þær skipta engu máli um verkefnið sem mér hafði verið falið.

Í stuttri grein sem ég fékk birta af þessu tilefni tók ég fram að í ræðu þessara kvenna kæmi fram misskilningur og jafnvel útúrsnúningur á skoðunum mínum. Óskaði ég eftir því að þessar hetjur mættu mér á opnum fundi til að ræða málið. Byggðist sú hugmynd á því að best væri að ræða ágreiningsmál á vettvangi þar sem handhafi öndverðra skoðana gæti veitt svör við því sem sagt væri og þá varið hendur sínar ef tilefni væri til.

Þær hafa nú báðar svarað. Hvorug þeirra vill mæta á slíkan fund. Ég get ekki sagt að sú afstaða komi mér á óvart. Mig grunar nefnilega að báðar séu huglausar og treysti sér ekki í að verja blaður sitt þannig að aðrir heyri.

Þá höfum við það.