Þetta verða for­eldrar að segja kvíðnum börnum sínum vegna skjálftanna

Anna Sig­ríður Jökuls­dóttir, sál­fræðingur hjá Kvíða­með­ferðar­stöðinni segir að það sé mikil­vægt fyrir for­eldra að bregðast við í sam­ræmi við það sem sé að eiga sér stað þegar jarð­skjálftar ríða yfir, barna þeirra vegna.

Þetta kom fram í Reykja­vík síð­degis í dag þar sem Anna var til við­tals vegna þeirrar jarð­skjálfta­hrinu sem dunið hefur yfir Reykja­nes­skaga. Hún segir ótta­til­finningu afar eðli­leg við­brögð hjá öllum við þær að­stæður sem nú eru uppi.

„Það er í raun vírað í okkur að það kviknar þegar eitt­hvað ó­vana­legt er að gerast, eða það er lík­legt að eitt­hvað sem hefur á­hrif á vel­ferð okkar gæti verið að gerast. Hins vegar þá er kvíða­við­bragðið sjálft ekkert hættu­legt, það er bara ó­þægi­legt,“ segir Anna Sig­ríður.

Það að bregðast við eins og meiri hætta á ferðum en raun­veru­lega er getur valdið aukinni ó­þæginda eða kvíða­til­finningu að sögn Önnu. „Því þá fer ótta­við­bragðið okkar kannski að virkjast í tíma og ó­tíma því heilinn heldur þá í raun og veru að það sé svona mikil hætta á ferðum,“ segir hún.

Gott að spyrja börnin

Þess vegna sé mikil­vægt að for­eldrar bregðist við í sam­ræmi við það sem sé að gerast. „Þegar það eru skjálftar sem hrista hér að­eins og það er ekki á­stæða til að bregðast neitt meira við heldur en að bíða það af sér, þá er mikil­vægt að segja þeim það.“

Gott sé að spyrja börnin hvað þau séu raun­veru­lega hrædd um að gerist þar sem ótti barnanna snúi stundum að ein­hverjum sem getur ekki eða mun ekki gerast. Gott er að gera börnum rien fyrir því að þau séu jafn örugg í skólanum og heima.

„Það er brugðist við eins og þarf að gera, hvort sem þau eru þar eða heima hjá sér. Þau halda kannski að jörðin sé að gera eitt­hvað sem hún er ekki að gera. Það er mikil­vægt að vita hvað það er sem þau eru hrædd um,“ segir Anna Sig­ríður.