Þetta gerir Albert ekki aftur: Laug því að börnin væru á leið til Fær­eyja

„Ég er búinn að læra ýmis­legt í þjálfun og ef ég þjálfa einn daginn 8-9 ára krakka aftur þá veit ég að ég get ekki leyft mér að bulla enda­laust í þeim.“

Þetta segir knatt­spyrnu­maðurinn Albert Brynjar Inga­son sem er trú­lega með skemmti­legustu Ís­lendingunum á Twitter. Albert birti skemmti­leg skjá­skot frá þeim tíma þegar hann var þjálfari sjötta flokks Fylkis veturinn 2017/2018.

Í fyrra skjá­skotinu, Face­book-skila­boðum sem lík­lega eru frá ein­hverju for­eldri, segir: „Hæ hæ hér komu menn úber spenntir og segjast vera fara til Fær­eyja, stað­hæfa að þið hafið sagt það. Er þetta rétt?“

Í seinna skjá­skotinu má sjá þegar Albert reynir að út­skýra fyrir for­eldrum og for­ráða­mönnum að um grín var að ræða.

„Góðan daginn.

Best að leið­rétta eitt, Weet­os-mótið er haldið á Tungu­bökkum í Mos­fells­bæ en ekki í Fær­eyjum.

Ég var að­eins að grínast í strákunum, og ekki alveg allir sem áttuðu sig á því.

Svo ekki bóka í Nor­rænu!“