Þetta gerði hún eftir atvinnumissi hjá Icelandair: „Klæddi sig úr hæla­skónum og fór í stíg­vélin“

16. september 2020
22:00
Fréttir & pistlar

„Þetta kannski sýnir það að í fisk­vinnslu eru ekki sömu erfiðis­störfin og í gamla daga,“ segir Sigur­geir Brynjar Krist­geirs­son, Binni í Vinnslu­stöðinni, í við­tali í Markaðnum sem fylgir Frétta­blaðinu í dag.

Í við­talinu fer Binni um víðan völl og ræðir til dæmis síðasta ár sem var það besta í sögu Vinnslu­stöðvarinnar í Eyjum, að minnsta kosti ef litið er til veltu og fram­legðar. Þá segir Binni skemmti­lega sögu af flug­freyju sem missti vinnuna hjá Icelandair en kom til vinnu hjá Vinnslu­stöðinni.

„Fyrr í sumar var kona stödd hér í Eyjum sem hafði áður starfað sem flug­freyja hjá Icelandair og hafði verið sagt upp. Hún var alin upp í Eyjum og hafði unnið í fiski á ung­lings­árunum og þekkti því erfiðis­vinnu. Eftir að hún missir starfið kemur hún í heima­hagana til að heim­sækja ættingjana. Ein frænka hennar segir við hana: „Af hverju kemurðu ekki bara á vakt í Vinnslu­stöðinni? Þar vantar fólk til starfa.“ Flug­freyjan klæddi sig úr hæla­skónum og fór í stíg­vélin og fór beint á nætur­vakt í vinnslunni hjá okkur. Hún var vön vakta­vinnu úr fluginu svo það var ekkert mál fyrir hana að vaka heila nótt. Daginn eftir segir hún að hún skilji ekkert í þessu – „þetta var ekkert mál, ég er bara ekkert þreytt.“ Þetta kannski sýnir það að í fisk­vinnslu eru ekki sömu erfiðis­störfin og í gamla daga. Þetta snýst bara um að hafa eftir­lit með vélum. Þú þarft auð­vitað ganga tölu­vert um gólf en þetta er ekki sama puðið og áður var. Sama er á upp­sjávar­skipunum. En það verður þó ekki sama sagt um þá sem eru á neta­bátum og tog­skipunum hjá okkur. Það er enn þá hörku­vinna. En sem betur fer er þessum störfum að fækka sem eru svona mikið erfiði og þannig getum við laðað að okkur fólk úr fleiri áttum.“