„Þetta er Gummi lögga, það er komin leitarbeiðni á þig. Hvað er planið?“

Guðundur Fylkisson hefur undanfarin sex ár starfað við að leita að týndum börnum hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Oft eru það sömu börnin sem leitað er að og hefur hann áunnið sér traust meðal þeirra. Hann segist strax í upphafi er hann byrjaði í starfinu hafa ákveðið að segja börnunum alltaf satt og reyna að semja við þau.

Guðmundur var til viðtals í helgarblaði Fréttablaðsins í gær þar sem hann ræddi göfug störf sín. Hann segir að mikilvægast sé að börnin geti treyst honum en sum þeirra hringja jafnvel í hann að fyrra bragði og biðja hann að sækja sig eða vini sína sem þau sjá að eru í vanda.

Aðspurður hvort það sé auðveldara að leita þeirra barna sem hann þekkir segir hann tvær hliðar á því: „Þau sem eru komin í djúpa neyslu eru búin að læra á mig og ég á þau. Þau vita hvernig þau geta dulist lengur en oftar en ekki fara þessir einstaklingar að skilja eftir sig brauðmola eins og Hans og Gréta. Þá eru þau orðin þreytt og vilja fara að komast út úr þessu.“

Langstærsta hópnum þarf hann þó ekki að leita sérstaklega að heldur dugir oftast að senda bara eitt SMS: „Þetta er Gummi lögga, það er komin leitarbeiðni á þig. Hvað er planið?“

„Oft eru þetta krakkar sem eru að sofa hjá í fyrsta skipti og eru að heiman yfir nótt. Þau eru að kanna hversu langt þau komist með foreldra sína. Þessi börn koma yfirleitt bara einu sinni inn á borð til mín og aldrei aftur," segir Guðmundur.

„Stundum er maður að banka upp á hjá strangheiðarlegu fullorðnu fólki þar sem barn sem ég er að leita að, hefur gist. Fólkið fölnar þegar maður mætir eða hringir og hafði þá ekki kveikt á að barnið hafi ekki látið vita af sér. Þetta eru þá venjulegir krakkar sem eru ekki í neyslu. Um leið og þetta eru börn í neyslu er fólk meira með varann á sér.“

„Í hverjum árgangi eru sirka fjögur þúsund einstaklingar og ég hef kannski afskipti af 20 til 30 þeirra. Þetta er rosalega lítill hópur í heildina, núll komma eitthvað prósent hvers árgangs.“

Guðmundur segir krakkana sem ítrekað er leitað að þekkja ferlið og vita hvað eigi eftir að gerast.

„Ég segi við þau: „Ef þú svarar mér veit ég að þú ert í lagi en ef þú svarar mér ekki fer ég eins og foreldrar þínir að mála skrattann á veginn. Ég fer að hringja út um allt og banka út um allt. Ónáða fullt af fólki í kringum þig. Svo þau eru búin að læra að svara mér. Þau vita að ef ég heyri að þau eru í lagi geta þau mögulega samið við mig. Til dæmis að við heyrumst aftur um kvöldmat. Það samtal á sér alveg stað. Þau vita að þetta endar, að þau fara heim eða á Stuðla.“