Hringbraut skrifar

Þessir staðir verða lokaðir í reykjavík á morgun: listinn er langur

13. febrúar 2020
19:05
Fréttir & pistlar

„Rauð veðurviðvörun hefur verið gefin út fyrir höfuðborgarsvæðið frá kl. 7 í fyrramálið sem þýðir að fólk á ekki að vera á ferðinni nema brýna nauðsyn beri til.“ Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg. Þar segir enn fremur: 

„Reglulegt skólahald fellur niður en leikskólar og grunnskólar verða engu að síður opnir með lágmarksmönnun fyrir fólk sem þarf nauðsynlega á vistun fyrir börn sína að halda – það er fólk sem sinnir neyðarþjónustu, löggæslu, slökkvistörfum og björgunarsveitarútköllum“. 

Veðrið á að ganga niður eftir kl. 15 samkvæmt spám sem þýðir að ýmis þjónusta raskast eða fellur niður í fyrramálið og jafnvel allan daginn:

-       Almennt skólahald fellur niður

-       Sundlaugar á höfuðborgarsvæðinu verða lokaðar en opna kl. 15

-       Frístundaheimili opna þegar viðvörunum lýkur. Eins og staðan er núna er appelsínugul viðvörun í gildi til kl. 15:00

-       Þjónustumiðstöðvar verða lokaðar til kl. 15.

-       Skerðing verður á þjónustu heimahjúkrunar en neyðartilvikum sinnt eftir föngum.

-       Byrjað verður að keyra út heimsendan mat í kvöld og því haldið áfram eftir hádegi á morgun ef veður leyfir.

-       Neyðarskýli fyrir heimilislaust fólk verða opin allan daginn.

-       Söfn borgarinnar verða lokuð á morgun, en Borgarbókasafnið, Landnámssýningin og Ljósmyndasafn Reykjavíkur verða opnuð kl. 15 ef veður leyfir.

-       Þjónustuver Reykjavíkurborgar verður opið og svarar í síma 411 1111.

-       Strætó gengur ekki í fyrramáli.

Fólk er hvatt til þess að halda sig heima í fyrramálið og fylgjast vel með tilkynningum frá almannavörnum í fjölmiðlum. 

Samkvæmt spám á veður að ganga niður eftir hádegi og verður hægt að vera á ferðinni eftir kl. 15 að öllu óbreyttu.

Staðan verður endurmetin í fyrramálið.