Þekktur breskur leikari úthúðar Icelandair: „Þið ættuð að borga kostnaðinn sama hvað“

Joel Montague sem leikur eitt af aðalhlutverkunum í söngleiknum Hamilton í Victoria Palace leikhúsinu í London segir farir sínar ekki sléttar af Icelandair á samskiptamiðlinum Twitter í dag.

Montague virðist vera fastur í París ef marka má færslur hans á samskiptamiðlum eftir að Icelandair felldi niður flug í morgun vegna óveðurs.

Montague sem segist skilja að það þurfi að aflýsa flugum vegna veðurs er ósáttur með viðleitni þjónustuaðila Icelandair og furðar sig á að fá 150 evrur til að finna gistingu óháð því hvort að sú gisting sé til staðar.

„Þið ættuð að borga kostnaðinn sama hvað það kostar. Núna eru tvær manneskjur fastar í París. HÖFUÐBORG FRAKKLANDS. Og þið ætlist til að fólk finni hótel eftir ákveðnu verði,“ segir Montague og heldur áfram

„Ég er ekki manneskja sem kaupi dýr hótelherbergi en að setja verðþak á hótelherbergi án þess að útvega herbergið eða bjóðast til að aðstoða er svívirðilegt. Sérstaklega þegar umræddir einstaklingar eru ekki búsettir í landinu.“

Færslur Montague má sjá hér fyrir neðan.