Þegar Samfylkingin klúðraði kosningunum

Samfylkingin reið ekki feitum hesti frá alþingiskosningunum í síðasta mánuði. Flokkurinn, sem um mitt kjörtímabilið mældist með um 18 prósent fylgi í skoðanakönnunum og nær 16 prósent um síðustu jól, dalaði jafnt og þétt fram að kosningum. Tíu dögum fyrir kosningar mældist fylgið 13 prósent. Viku fyrir kosningar var það 12,7 prósent. Upp úr kjörkössunum komu 9,9 prósent atkvæða og Samfylkingin náði sex kjörnum þingmönnum, tapaði einum frá síðustu kosningum og 2,2 prósentum atkvæða.
Hvernig fer stjórnarandstöðuflokkur að því að tapa nær helmingi fylgisins á rúmu einu og hálfu ári? Ekkert eitt veldur því heldur þarf margt að „smella saman“ til að svo fari. Ljóst er að stefna Samfylkingarinnar um skattahækkanir og útþenslu ríkisins höfðaði ekki til kjósenda í þeim mæli sem forysta flokksins hafði gert sér vonir um. Klisjukenndur málflutningur nær oft vel til kjósenda en svo virðist sem klisjur Samfylkingarinnar hafi farið fyrir ofan garð og neðan að þessu sinni. Þá er nokkuð ljóst að kjósendur horfa ekki til Loga Einarssonar sem leiðtoga.
Eitt mál varð þó Samfylkingunni dýrkeyptara en önnur. Flokkurinn klúðraði gersamlega uppröðun á lista og fór gegn vilja stórs hluta stuðningsmanna. Aðferðafræðin á bak við val á lista var óboðleg. Forysta flokksins vildi greinilega koma í veg fyrir bræðravíg í prófkjörsslag en uppskar engu að síður djúpstæða og víðtæka óánægju. Þá voru listar illa samsettir.
Einum öflugasta þingmanni flokksins, Ágústi Ólafi Ágústssyni, var bolað út á undarlegum forsendum. Einhverra hluta vegna vildi forystan frekar flökkukind frá Vinstri grænum en gallharðan samfylkingarmann. Mögulega höfðar Rósa Björk Brynjólfsdóttir til einhverra kjósenda einhvers staðar. En bersýnilega höfðar hún ekki til þess kjósendamengis sem Samfylking reyndi að nálgast í þessum kosningum. Það hefði Loga og öðrum forystumönnum átt að vera ljóst.
Ekki var Jóhann Páll Jóhannsson, fyrrum blaðamaður á Stundinni, skárri sending en Rósa Björk. Þeirra náttúrulega umhverfi er nær Sósíalistaflokki Gunnars Smára en í jafnaðarmannaflokki. Þetta sáu almennir flokksmenn og kjósendur en ekki Logi og forystan.
Í Suðvesturkjördæmi var sigurvissan svo mikil að þingmaðurinn í kjördæminu var settur í annað sætið á eftir fyrrverandi þingmanni og ráðherra flokksins. Blása átti til sóknar sem engin varð. Nú er þingmaðurinn orðinn varaþingmaður – nokkuð sem tæpast stóð til.
Þá mátti litlu muna að flokkurinn þurrkaðist út í Suðurkjördæmi. Þar var oddvitinn ekki settur til hliðar heldur veðjað á fylgi Oddnýjar Harðardóttur, sem reyndist ekki mikið.
Eina uppstillingin sem heppnaðist hjá Samfylkingunni fyrir þessar kosningar var að stilla Kristrúnu Frostadóttur upp sem oddvita í Reykjavík-suður. Hún er mesta efni sem Samfylkingin hefur stillt upp um árabil. Hún lenti í hakkavél skrímsladeildar Sjálfstæðisflokksins en stendur ósködduð eftir þó að atlagan hafi skaðað útkomu hennar og flokksins í kosningunum.
Kristrún er ekki aðeins bjartasta von Samfylkingarinnar – eins og málum er háttað er hún eina von hennar. Því fyrr sem Samfylkingin velur hana til forystu því betra fyrir flokkinn. Síðan er hægt að fara í að endurstilla stefnu flokksins og fá öflugt nýtt fólk. Þá getur aftur vorað hjá Samfylkingunni. Kannski!