Hringbraut skrifar

Þannig týnist tíminn - Katrín um Ragga Bjarna: Hann minnti okkur á að senda ástarbréfin, ekki láta þau gulna og leyfa okkur að elska

26. febrúar 2020
13:45
Fréttir & pistlar

„Þannig týnist tíminn, sungu Raggi Bjarna og Lay Low fyrir okkur og minntu okkur á að leyfa okkur að elska. Senda ástarbréfin sem við skrifum og leyfa þeim ekki að gulna. Það eiga nefnilega allar kynslóðir sína útgáfu af Ragga Bjarna, hvort sem hann söng um vorkvöld í Reykjavík eða tímann sem getur týnst.“

Þetta segir Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, sem minnist Ragga Bjarna. Ragnar Bjarnason, einn ástsælasti söngvari landsins sem hefur skemmt Íslendingum í marga áratugi, er látinn, 85 ára að aldri. Hann lætur eftir sig eiginkonu, Helle Birthe Bjarnason.

Katrín segir: „Ragnar er nú látinn og hans verður sárt saknað, bæði úr íslensku tónlistarlífi og íslensku samfélagi, þó að tónlistin og röddin muni lifa. Fyrir það erum við þakklát. Við spjölluðum alltaf saman þegar við rákumst hvort á annað á förnum vegi.“

Þá segir Katrín að það sé henni minnisstætt þegar hún hitti Ragga Bjarna í bókabúðinni Úlfarsfelli við Hagamel. Katrín segir:

„Einn sona minna var með í för, þá á leikskólaaldri, og lét rækilega í sér heyra, og Ragnar tók þá utan um mig, einstaklega hlýlega, og gaf mér góð ráð um barnauppeldi og pólitík (sem stundum eiga sitthvað sameiginlegt). Blessuð sé minning Ragga Bjarna.“

Hér má hlusta á Ragga Bjarna og Lay Low syngja Þannig týnist tíminn:

Hér má sjá Ragga Bjarna og Sölku Sól syngja sama lag: