Þetta eru sjálfstæðismennirnir hjá gamma: sjáðu hverjir þeir eru - lífeyrissjóðir hafa tapað um þúsund milljónum

Árið 2011 kom fjárfestingarfélagið Gamma inn á húsnæðismarkaðinn. Fyrirtækið fjárfesti gífurlegum fjármunum í fasteignum á höfuðborgarsvæðinu. Alls keypti Gamma rúmlega 1500 íbúðir á stuttum tíma. Leiguverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði hratt eftir að fjárfestingar Gamma fóru á stað. Fyrirtækið ætlaði sér stóra hluti, meðal annars að bjóða námsmönnum námslán og byggja vindmyllugarða á Íslandi. Þá gaf Gamma út skýrslu vegna innviðauppbyggingar á Íslandi árið 2016. Þar kom meðal annars fram að einkaaðilar ættu að taka þátt í byggingu og rekstri á til dæmis vegakerfi landsins. Nokkrir lykilstarfsmenn og stórir hluthafar í Gamma, bæði fyrrverandi og núverandi, hafa langa sögu þegar kemur að tengslum þeirra við Sjálfstæðisflokkinn. 

\"\" 

Jónmundur Guðmarsson

Jónmundur Guðmarsson er fyrrverandi bæjarstjóri Sjálfstæðisflokksins á Seltjarnarnesi og fyrrverandi framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins. Jónmundur er fyrrverandi Framkvæmdastjóri sölu- og viðskiptaþróunar hjá GAMMA en eftir að Kvika keypti félagið varð hann forstöðumaður sölu og viðskiptatengsla.

Jón­mund­ur er fædd­ur árið 1968. Hann lauk stúd­ents­prófi frá Mennta­skól­an­um í Reykja­vík vorið 1988, B.A. prófi í heim­speki og stjórn­mála­fræði frá Há­skóla Íslands árið 1992 og meist­ara­gráðu í alþjóðastjórn­mál­um frá Oxford há­skóla árið 1994. Jón­mund­ur hóf störf hjá mennta­málaráðuneyt­inu árið 1995, þar sem hann gegndi starfi verk­efn­is­stjóra við end­ur­skoðun aðal­nám­skráa og mót­un nýrr­ar skóla­stefnu. Hann varð svo aðstoðarmaður Björns Bjarnasonar, þáverandi menntamálaráðherra Sjálfstæðisflokks, árið 1999.

Jónmundur var bæjarstjóri á Seltjarnarnesi á árunum 2002 til 2009. Árið 2009 tók hann svo við framkvæmdastjórastöðu Sjálfstæðisflokksins og starfaði fyrir flokkinn til ársins 2015. Undanfarin ár hefur hann aðstoðað Hannes Hólmstein Gissurarson, stjórnmálafræðiprófessor við Háskóla Íslands, við að boða frjálshyggju á Íslandi í gegnum svokallað Rannsóknarsetur um nýsköpun og hagvöxt. Jónmundur situr í stjórn Rannsóknarsetursins. 

Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis sem gerð var eftir hrun var fjallað um félag sem Jónmundur fjárfesti í á meðan hann starfaði sem bæjarstjóri í Garðabæ. Félagið hét Bergur og fjárfesti fyrir rúma 4 milljarða króna í hlutabréfum í Icebank. Icebank varð svo gjaldþrota árið 2008 og félag Jónmundar varð þá einnig gjaldþrota. Afskrifa þurfti tæplega 3,8 milljarða króna þegar fyrirtæki Jónmundar varð gjaldþrota. Samkvæmt ársreikningi Gamma fyrir árið 2018 átti Jónmundur 2% af heildarhlutafé Gamma áður en Kvika banki keypti fyrirtækið.

 

\"\"

Ingvi Hrafn Óskarsson

Ingvi útskrifaðist frá Menntaskólanum í Reykjavík og lauk embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands 1998. Ingvi Hrafn var mjög virkur í stúdentapólitíkinni þegar hann var í námi við Háskóla Íslands. Hann sat í stjórn Vöku frá 1994 til 1995, formaður Vöku frá 1996 til 1997, í stjórn Stúdentaráðs frá 1995 til 19­97 og var einnig fulltrúi stúdenta í Háskólaráði frá 1995 til 19­97. Ingvi kláraði svo LL.M. próf frá Columbia Háskóla í New York og M.Sc. í fjármálum frá London Business School. Hann var aðjunkt við Viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands og stundakennari við Lagadeild Háskóla Íslands

Árið 1997 var hann svo kosinn í stjórn Heimdallar, félags ungra Sjálfstæðismanna. Ári seinna var hann kjörinn Formaður Heimdallar. Frá árunum 1999 til 2003 var hann bæði varaformaður og formaður félags ungra Sjálfstæðismanna. Á meðan hann var virkur í störfum fyrir unga Sjálfstæðismenn var hann ráðinn sem aðstoðarmaður Sólveigar Pétursdóttur, dóms- og kirkjumálaráðherra Sjálfstæðismanna, árið 1999. 

Ingvi tók þátt í prófkjöri Sjálfstæðismanna árið 2003, en hann komst ekki inn á þing í kosningunum það árið. Árið 2007 sat hann þó á Alþingi sem varaþingmaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Á árunum 2004 til 2011 starfaði hann hjá Íslandsbanka. Þar starfaði hann meðal annars sem forstöðumaður lögfræðiráðgjafar og sem verkefnisstjóri fyrirtækjaráðgjafar. Árið 2011 hóf svo störf hjá Lögmönnum Lækjargötu og hætti þar árið 2017 þegar hann tók til starfa hjá Gamma sem framkvæmdastjóri sérhæfðra fjárfestinga. Árið 2013 skipaði svo Illugi Gunnarsson, fyrrverandi menntamálaráðherra Sjálfstæðismanna, hann sem stjórnarformann Ríkisútvarpsins. Hann lét af störfum árið 2015, eingöngu nokkrum dögum eftir birtingu skýrsla um rekstur Ríkisútvarpsins var gefin út. Ingvi Hrafn sat einnig fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins sem varamaður í bankaráði Seðlabanka Íslands frá árunum 2012 til 2016.

Hlutverk Ingva Hrafns hjá Gamma var meðal annars að vera sjóðs­stjóri Gamma:Novus, en sam­kvæmt árs­upp­gjöri árs­ins 2018 var eigið fé fag­fjár­festa­sjóðs­ins GAMMA: Novus metið á 4,4 millj­arða króna. Eftir nýlegt end­ur­mat á eignum sjóðs­ins er eigið fé hans hins vegar áætlað 42 millj­ónir króna. Á eingöngu einu ári þurrkuðust upp um 4,3 milljarðar króna hjá sjóðnum sem hann stýrði. Ingvi Hrafn starfar enn hjá félag­inu en nú sem for­stöðu­maður nýbygg­inga og þró­un­ar.

\"\"

Gísli Hauksson

Gísli lauk prófi í verðbréfaviðskiptum hér á landi árið 2001 og í London árið 2004. Gísli starfaði áður sem forstöðumaður skuldabréfaviðskipta og afleiðna hjá Kaupþingi í London frá 2004-2006. Hann fluttist svo til Íslands og starfaði við það sama hjá Kaupþingi á Íslandi til ársins 2008.

Gísli er í dag í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins og starfar einnig sem formaður fjármálaráðs Sjálfstæðisflokksins. Meðal hlutverka fjármálaráðs Sjálfstæðisflokksins er að fjármagna starfsemi flokksins. Undanfarin ár hefur hann aðstoðað Hannes Hólmstein Gissurarson, stjórnmálafræðiprófessor við Háskóla Íslands, við að boða frjálshyggju á Íslandi í gegnum svokallað Rannsóknarsetur um nýsköpun og hagvöxt. Gísli er formaður stjórnar Rannsóknarsetursins. Þá hlaut hann frelsisverðlaun Kjartans Gunnarssonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins árið 2014.

Gísli var annar af stofnendum GAMMA, ásamt Agnari Möller, og átti tæp 30 prósent í félaginu í gegnum eignarhaldsfélag sitt, Ægi Invest ehf. Gísli lét af störfum hjá Gamma í mars árið 2018 og seldi svo seinna Kviku banka allan hlut sinn í félaginu. Hagnaður félagsins nam tæplega 1.083 milljónum króna í fyrra og jókst um einn milljarð á milli ára.

Arnar Hauksson, einn af eigendum starfsmannaleigunnar Elju, er bróðir Gísla. Ný stjórn Gamma er nú að skoða greiðslur sem runnu til Elju frá Gamma. Grunur leikur á að ekki hafi verið eðlilega að greiðslunum staðið.

\"\"

Eiríkur Finnur Greipsson

Eiríkur Finnur var í mörg ár oddviti Sjálfstæðismanna í sveitarstjórn Flateyrar. Árið 2010 varð hann svo oddviti Sjálfstæðismanna á Ísafirði og var formaður bæjarráðs til ársins 2012. Eiríkur starfaði til fjölda ára sem sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Vestfirðinga. Hann, ásamt Ingva Hrafn Óskarssyni sem minnst er á hér fyrir ofan, voru báðir skipaðir í stjórn RÚV af Illuga Gunnarssyni, þáverandi menntamálaráðherra Sjálfstæðismanna. Eiríkur var spurður út í skipun hans í stjórn RÚV á sínum tíma og sagði hann þá: „Er honum óheimilt að skipa vini sína? Eru þeir vanhæfir þar með?“ 

Eiríkur Finnur hefur sjálfur sagt að hann sé búinn að þekkja Illuga frá því þeir voru unglingar og konu hans frá barnsaldri. Einnig voru viðskiptatengsl á milli Illuga og Eiríks, því sparisjóðurinn sem Eiríkur Finnur stýrði veitti Illuga og eiginkonu hans tvívegis lán á árunum 2005 og 2007. Í dag starfar Eiríkur Finnur sem verkefnisstjóri hjá Upphafi fasteignarfélagi. Félagið tapaði rúmlega 1,1 milljarði króna á síðasta ári og versnaði afkoma félagsins um rúmlega 1,4 milljarða króna samkvæmt ársreikningi félagsins. Upphaf er stærsta eign fagfjárfestingarsjóðsins GAMMA:Novus. Gengi sjóðsins var 183 um mitt þetta ár en var í vikunni fært niður í 2. Þessi niðurfærsla hefur kostað íslenska lífeyrissjóði rúmlega 1000 milljónir króna.

\"\"

Tryggvi Þór Herbertsson

Tryggvi Þór  var ráðgjafi fjárfestingarfélagsins GAMMA. Hann er fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Hann hefur einnig unnið sem ráðgjafi slitastjórnar Glitnis. Þá hefur Tryggvi Þór gegnt ýmsum trún­að­ar­störfum fyrir íslenskrar rík­is­stjórn­ir. Hann var efna­hags­ráð­gjafi Geirs H. Haarde, þáver­andi forsætisráðherra, í hrun­inu og verkefnisstjóri „Leið­rétt­ing­ar­inn­ar“, sem snerist um að nið­ur­greiða hús­næð­is­lán hluta þeirra sem voru með verð­tryggð hús­næð­is­lán á árunum 2008 og 2009.

Þá sá Sjálfstæðisflokkurinn til þess að honum væri tryggt viðurværi og verkefni eftir að hann datt út af þingi. Bjarni Benediktsson, formaður flokksins, skoraði á Tryggva Þór að bjóða sig fram gegn Kristjáni Júlíussyni og náði Tryggvi aðeins fimmta sæti. Í kjölfarið hætti hann á þingi en Bjarni gerði hann að verkefnastjóra í fjármálaráðuneytinu þar sem hann fékk himinhá laun samanborið við aðra starfsmenn þar á bæ.

Þá sagði í DV árið 2010:

„Sama daginn og Tryggvi Þór Herbertsson undirritaði tímabundin starfslok sín hjá Askar við Karl Wernersson samdi hann við Geir H. Haarde um að taka við sem efnahagsráðgjafi ríkisstjórnarinnar. Þetta var þann 18. júlí árið 2008 og færði Tryggvi sig þar með um set frá fjárfestingabanka Karls og yfir til ríkisstjórnar Geirs.

Tryggvi samdi við Karl um að hann fengi sex mánaða leyfi frá störfum. Samkomulagið fól í sér að hann fengi greiddar bónusgreiðslur upp á 16,25 milljónir á næstu sex mánuðum, á meðan hann væri efnahagsráðgjafi Geirs. Tryggvi var því með nærri 3 milljónir á mánuði, auk bíls og rekstrarkostnaðar, á meðan hann starfaði fyrir ríkisstjórnina.“

Þegar Tryggvi var svo efnahagsráðgjafi Geirs forsætisráðherra reyndi hann að sefa ótta útlendinga við að íslensku bankarnir yrðu gjaldþrota, t.d. með því að að lofa í breskum fjölmiðlum að íslenska ríkið ábyrgðist Icesave reikningana. Í viðtali við BBC kom fram:

Spyrill: Fullt af fólki í Bretlandi eru með sparnað í þessum tveimur bönkum, Landsbankanum og Kaupþingi. Er peningurinn þeirra öruggur?
Tryggvi Þór: Já, samkvæmt minni vitneskju er Ísland hluti af Evróputilskipun um innistæðutryggingar, þannig að já, svo ætti að vera.

Spyrill: Ég veit að þið eruð hluti af tilskipuninni, ég er að spyrja hvað myndi gerast ef fólkið kæmi til ykkar, mynduð þið segja \"Við getum borgað ykkur 20 þúsund evrurnar\" eða mynduð þið segja \"Efnahagslífið er í svo miklum vanda, mér þykir það leitt, en við getum ekki staðið við þessar skuldbindingar.\"
Tryggvi Þór: Nei við erum ekki í svo miklum vanda, og líka, veistu, sumir íslensku bankanna starfa úr útibúi í Bretlandi, svo breska [ innistæðutryggingakerfið] á við um þá banka

Stuttu seinna, þegar Tryggvi Þór hafði verið kosinn á þing fyrir Sjálfstæðisflokkinn, kvað við annan tón og beitti hann sér af ákafa gegn því að ríkið ábyrgðist Icesave-reikningana.

Þá sagði á vef Herðubreiðar árið 2014 sem vitnaði í Morgunútvarp Rásar 2: „Tryggvi Þór Herbertsson, verkefnastjóri ríkisstjórnarinnar í skuldamálum, ætlar sjálfur að sækja um skuldalækkun í samræmi við tillögur sem kynntar voru í nóvember.”

Einnig sagði í pistli eftir Náttfara á Hringbraut að einnig hafi verið gerð tilraun til að gera Tryggva Þór að formanni Seðlabankans en Framsókn komið í veg fyrir það.

Stundin greindi svo frá því árið 2015 að félagið Taurus hefði fengið 2,1 milljón frá ráðuneyti Illuga, mennta- og menningarmálaráðuneytinu vegna verkefnisins Nám er vinnandi vegur. Tryggvi Þór Herbertsson, fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, á 99 prósenta hlut í fyrirtækinu.

Stundin fjallaði svo um það á síðasta ári að Tryggvi hefði farið sem ráðgjafi GAMM um sveitir Dalabyggðar og skoðaði aðstæður og fundað með sveitarstjórninni út af áhuga fyrirtækisins á rafmagnsframleiðslu með vindorku í sveitinni. Þar sagði að samkvæmt heimildum Stundarinnar hefði GAMMA augastað á jörðinni Dönustöðum í Dölum. Tryggvi sagði í skeyti til Stundarinnar að hann hefði aðeins verið með í för því hann þekkti fjárfestanna og væri ekki að vinna að vindorkuverkefninu þrátt fyrir ráðgjafastörf sín fyrir London-skrifstofu Gamma.

Árið 2017 greindi Stundin síðan frá því að 4,3 milljarðar Askar Capital hefði verið afskrifað en eignasafn Seðlabankans var stærsti kröfuhafinn. Tryggvi var eins og áður segir forstjóri þess fyrir hrun.  

Bankinn var í eigu Karls Wernerssonar og fjölskyldu sem átti í nánu samstarfi við Bjarna Benediktsson og fjölskyldu um ýmiss viðskipti og vafninga.