Hringbraut skrifar

Sýður á bubba, vilhjálmur ósáttur og dauðastríð öldungs: „djöfulsins kjaftæði“ – haltu órum þínum innan veggja höfuðkúpunnar

16. febrúar 2020
18:17
Fréttir & pistlar

„Frekar súrkál en súrál“, sagði Líf Magneudóttir brosandi í Silfrinu rétt í þessu - um hugsanlega lokun álversins í Straumsvík. Þar vinna um 450 manns. Skrýtið viðhorf.“

Þetta segir Páll Magnússon þingmaður Sjálfstæðisflokksins og vitnar í og birtir skjáskot af Líf Magneudóttir borgarfulltrúa Vinstri grænna. Hart er tekist á um Álverið í straumsvík en Rannveig Rist, forstjóri álversins hefur sagt að til greina komi að loka því vegna þrenginga.

Tónlistarmaðurinn Bubbi Morthens er einn þeirra sem vill að skellt verði í lás í Straumsvík en hann segir í þræði Páls: „Loka þessu álveri.“ Stefán Páll Páluson, fyrrverandi frambjóðandi hins umdeilda Karlalista en þurfti frá að hverfa vegna dóms, spyr hvað Bubbi vilja gera við starfsfólkið. Bubbi svarar:  

„það er einfaldlega ekki a mínu borði þessir alrisar hafa vaðið her uppi með dólgshátt ef þeir geta ekki starfað við þessar aðstæður fínt lokum draslinu.“

Vilhjálmur Birgisson, verkalýðsleiðtogi á Akranesi svarar einnig Bubba og bendir á að fjöldi verkamanna byggi lífsafkomu sína á álverinu.

„Ég bið mann eins og þig Bubbi að tala varlega því allt þetta fólk óttast innilega um framtíð sína bæði hvað varðar lífsafkomu og atvinnuöryggi:

„Stál og hnífur er merki mitt
Merki farandverkamanna
Þitt var mitt og mitt var þitt
Meðan ég bjó a meðal manna.“

Bubbi svarar: „Ég þarf ekki að tala varlega þegar það eru stóriðjufyrirtæki sem beita fólki sem skiptimynt og vaða uppi með dólgshátt. Ykkur væru nær að beina reiði ykkar annað en að mér eða ætlið þið að sitja undir þessu kjaftæði sem Rannveig Rist og hennar dólgar bjóða uppá það er alþíða ísland þúsundir sem hafa borgað og tekið höggið til þess að stóriðjan geti farið með hagnað ur landi í gegnum bókhalds fléttur.

Sigurjón Vigfússon sem starfað hefur hjá Rio Tinto segir þá að „mikið HATUR í Bubba út í verkafólk í stóriðjunni.“ Við þetta svar reiðist Bubbi og svarar:

„Hvaða djöfuls kjaftæði er þetta ertu ekki til að halda órum þínum innan veggja höfuðkúpunnar.“

Þá bætir Bubbi við að fyrirtæki sem sé rekið með milljarða tapi ár eftir ár ætti að loka. Vilhjálmur Birgisson segir: 

„Því miður er hatrið og heiftin svo mikil hjá sumu fólki í garð á þessari atvinnustarfsemi að það skiptir engu máli hvað er satt og hvað er ósatt. Því segi ég við þig Bubbi:

Ást og friður!“

Eitt að lokum sem ég hef margoft sagt í ræðu og riti að mér er skítsama um eigendur þessara fyrirtækja en mér alls ekki sama um atvinnuöryggi og lífsviðurværi minna félagsmanna.“

Bubbi svarar að eigendur fyrirtækisins hafi fengið auðlindina gefins á silfurfati. Hann segir:

„Skil ekki að þú skulir ekki vaða i þessa dólga sem nota fólkið sem skiptimynt. Ég horfi á þetta og heyrir við getum ekki rekið þetta og ég hef alltaf verið með horn í síðu álvera en ekki fólksins sem vinur þar. Þetta er drullu bissnes sem almenningur hefur niðurgreitt í áratugi.“

Vilhjálmur kveðst ósammála Bubba um að almenningur niðurgreiði starfsemina þegar álverið sé að kaupa 85% af allri raforkunni.

„Ég vil taka það skýrt fram að við eigum að reyna að ná sem mestu úr þessari starfsemi og það hef ég lagt áherslu á í samningum um kaup og kjör og eru meðallaun verkamanna í Norðuráli fyrir 182 vinnustundir yfir 750 þúsund á mánuði,“ segir Vilhjálmur og bætir við: „Við megum ekki eyðileggja samkeppnishæfni þessara fyrirtækja þannig að þau fari, þá munum við öll tapa. Bara á Grundartangasvæðinu skila fyrirtækin þar 19,1 milljarði inn í nærsamfélagið í formi launa og aðkeyptrar þjónustu frá stórum sem smáum þjónustufyrirtækjum en um 20 slík fyrirtæki þjónusta Norðurál og Elkem.“

Bubbi segir að lokum og beinir orðum sínum til Vilhjálms:

„Lokun Straumsvíkur = ódýrasti virkjanakosturinn. Nú ríður á að Landsvirkjun standi í lappirnar gagnvart Rio Tinto og lækki ekki verðið á raforku, til þess eins að lengja í dauðastríði þessa lúna öldungs.“