Svona fangaði Stefán hjarta Eddu Bjargar: „Hann algjörlega bræddi mig“

Edda Björg Eyjólfsdóttir leikkona er í forvitnilegu spjalli við Gunnar Hansson í Mannlega þættinum á Rás 1. Í viðtalinu fór Edda um víðan völl, ræddi leiklistina, feimnina, uppvaxtarárin í Kópavogi og framtíðardrauma sína.

Edda er gift Stefáni Má Magnússyni einum færasta gítarleikara Íslands. Stefán var fastagestur á heimilum landsmanna í fyrrasumar og í vetur þegar hann lék undir söng Helga Björns og fleiri listamanna á laugardagskvöldum.

Í viðtalinu segir Edda skemmtilega sögu af því hvernig Stefán fangaði hjarta henni, en það gerði hann með því að spila fyrir hana á gítar lag sem faðir hans gerði frægt. Faðir Stefáns er Magnús Eiríksson, oft kenndur við Mannakorn, en lagið sem um ræðir er Ef þú ert mér hjá sem Magnús samdi.

„Hann spilaði þetta á gítar. Hann heillaði mig gjörsamlega upp úr skónum,“ sagði Edda sem átti í fórum sínum Mannakornsplötuna með laginu. Eftir að Stefán spilaði það fyrir hana var hún dugleg að setja það á fóninn heima hjá sér og spilaði það í tætlur. „Hann algjörlega bræddi mig,“ sagði hún.