Sverrir hrökklaðist af Laugavegi og reksturinn hefur aldrei gengið betur

„Ég rak verslun á Laugavegi í 29 ár og hrökklaðist af Laugaveginum, þökk sé Degi B. Eggertssyni og hans fólki, því að þetta er það besta sem hefur gerst fyrir mig í minni viðskiptasögu,“ segir Sverrir Bergmann, kaupmaður í Herrahúsinu.

Sverrir er í viðtali sem birtist meðal annars á vef Eiríks Jónssonar, en þar kemur fram að Bolli Kristinsson, kaupmaður á Laugavegi, hafi látið gera nokkur myndbönd með viðtölum við gamalgróna kaupmenn á Laugavegi sem hafa ákveðið að færa fyrirtæki sín annað.

Styr hefur staðið um Laugaveginn og þá stefnu borgaryfirvalda að gera hann að varanlegri göngugötu. Verslunarmenn hafa skipst í tvær fylkingar; sumir eru mjög ánægðir með breytingarnar en aðrir telja að þær séu til hins verra.

Sverrir rak Herrahúsið á horni Laugavegar og Frakkastígs í fjölmörg ár en hann flutti fyrirtæki sitt í Ármúla árið 2018. Í viðtalinu kemur fram að eftir flutninginn hafi salan um 50% og telur Sverrir að það segi allt sem segja þarf um það hvað Laugavegurinn er orðinn léleg verslunargata, sérstaklega fyrir búð eins og hans.

Sverrir telur að Laugavegurinn verði aldrei samur nema að hann verði opnaður aftur. Að minnsta kosti ætti að hafa hann opinn frá 1. september til 1. maí ár hvert. Í myndbandinu fer hann svo yfir hvaða verslanir hafa horfið á braut á undanförnum árum af Laugavegi. Nefnir hann til dæmis Kúnígúnd, Lífstykkjabúðina, Herragarðinn og Dressmann svo einhverjar séu nefndar.

„Ég tel að að sé verið að vinna hreint og beint skemmdarverk á þessari blessuðu götu og hún kemur ekki til baka. Það held ég ekki. Ég þakka Guði fyrir að vera kominn úr þessu argaþrasi,“ segir Sverrir sem lýsti upplifun sinni einnig í viðtali við Morgunblaðið árið 2019. Kvaðst Sverrir rekja aukna veltu til betra aðgengis að versluninni og nægra bílastæða fyrir viðskiptavini. Þá væri húsaleiga mun hagstæðari en á Laugavegi.