Svandís í jólaskapi hjá Gísla Marteini

Það var ónotalegt að fylgjast með því hve glöð og upprifin Svandís Svavarsdóttir var í sjónvarpinu á föstudagskvöldið. Fyrr um daginn hafði hún sem heilbrigðisráðherra sett á samkomubann hér á landi, að tillögu sóttvarnarlæknis.

Í landinu er neyðarástand og landsmenn eru skelfingu lostnir vegna þeirrar veiru sem skekur heimsbyggðina. Samkomubann er risastór og víðtæk ráðstöfun sem trúlega varð ekki umflúin.
Að vonum kom það í hlut ráðherra heilbrigðismála að gerast boðberi þessara válegu tíðinda og því tilkynnti Svandís Svavarsdóttir um bannið á blaðamannafundi. Vegna þessa var hún í fjölmörgum viðtölum á flestum fjölmiðlum allan föstudaginn. Fátt gleður stjórnmálamenn meira en að komast í ljós fjölmiðlaumræðunnar.

Ráðherra, sem hafði varið deginum í sviðsljósi neyðarástands þjóðarinnar hefði átt að sýna þá smekkvísi að birtast ekki að kveldi dagsins í skemmtiþætti og velta sér þar upp úr aulahúmor. Landsmenn eru að fást við risastóran vanda sem enginn má afgreiða af léttúð. Síst af öllum ráðherrar. Og allra síst heilbrigðisráðherrann í þessu tilviki.

Svandís Svavarsdóttir réði bara ekki við sig. Hún var svo barnslega glöð yfir því að komast í sviðsljós fjölmiðlanna út af öðru en margvíslegum klúðursmálum ríkisstjórnarinnar og Vinstri grænna það sem af er yfirstandandi kjörtímabili. Flokkur hennar hefur tapað helmingi þess kjörfylgis sem flokkurinn náði í síðustu kosningum og er kominn niður í sex þingmenn samkvæmt nýjustu könnunum. VG hefur tapað fimm þingmönnum frá árslokum 2017. Fátt hefur gengið upp hjá Svandísi á kjörtímabilinu. En nú fær hún sviðsljósið.

Gísli Marteinn telur væntanlega að hann hafi verið að gera gamalli vinkonu sinni greiða með því að bjóða henni í skemmtiþátt sinn.

Þau tvö voru miklir mátar í borgarstjórn Reykjavíkur kjörtímabilið 2006-2010.
Gísli Marteinn er sennilega ekki enn búinn að átta sig á því hvernig var leikið á þau.