Svandís gerir engar breytingar – Sömu takmarkanir áfram í gildi

Svanvís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra tilkynnti eftir ríkisstjórnarfund í morgun að engar breytingar yrðu gerðar á sóttvarnarreglum að sinni. Þetta er í samræmi við tilmæli Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis sem skilaði Svandísi minnisblaði um liðna helgi.

Áfram verður því 20 manna samkomubann í gildi en vonast hafði verið til þess að hægt yrði að rýmka reglur um samkomutakmarkanir.

Svandís sagði eftir fundinn að reglurnar verði óbreyttar í eina viku og er því í raun um framlengingu á gildandi reglum að ræða. Sagði Svandís að ástæða hafi þótt til að bíða aðeins og sjá hvernig næstu dagar þróast.

Svandís sagði að ráðist yrði í tilslakanir á næstu vikum, vonandi viðamiklar, og benti hún á að þessi vika væri mjög stór varðandi bólusetningar. Er áætlað að 31 þúsund skammtar af bóluefnum verði gefnir landsmönnum í þessari viku.