Styrmir spyr hvort Ís­land sé til sölu: „Hafa þeir alveg tapað tengslum við sam­fé­lagið?“

„Hvað veldur sofanda­hætti kjörinna full­trúa, þegar kemur að jarða­kaupum út­lendinga? Hafa þeir alveg tapað tengslum við sam­fé­lagið, sem þeir búa í?“

Þessum spurningum velti Styrmir Gunnars­son, fyrr­verandi rit­stjóri Morgun­blaðsins, fram í viku­legum pistli sínum sem birtist í Morgun­blaðinu um helgina.

Styrmir vísar í ný­legar fréttir þess efnis að Hjör­leifs­höfði sé kominn í eigu hluta­fé­lags sem er að meiri­hluta í þýskri eigu. Rifjar hann það upp að Ingólfs­höfði og Hjör­leifs­höfði hafi verið einna fyrstu kenni­leitin á Ís­landi sem barns­sálin stimplaði inn vegna sögunnar.

„Áður hefur komið fram, að tölu­verður hluti Norð­austur­lands er kominn í eigu brezks auð­kýfings sem nú býr í Móna­kó. Skýringin á jarða­kaupum hans er sögð vera á­hugi á að friða laxa­stofninn í ám á því svæði. Á­hugi Þjóð­verjanna á Hjör­leifs­höfða er sagður vera sandurinn á þeirri landar­eign, sem um er að ræða. En hvaða máli skiptir, þótt út­lendingar eigi jarðir hér?“

Styrmir bendir á að land sé undir­staða full­veldis og það hljóti að þýða að ein­hver tak­mörk séu fyrir því hvað mikið má selja af slíku landi til út­lendinga.

„Úr því að brezkur auð­kýfingur fær þá hug­mynd að kaupa tölu­verðan hluta Norð­austur­lands gætu t.d. Kín­verjar (sem áður hafa reynt að kaupa land hér) fengið þá hug­mynd að kaupa allar eyði­jarðir á Vest­fjarða­kjálkanum og eignast þar með veru­legan hluta af honum. Það mundi koma sér vel fyrir þá, þegar skipa­flutningar þeirra um norð­vestur­leiðina yfir pólinn aukast að ráði. Þeir hafa ekki bara sýnt á­huga á að kaupa stóra jörð á Ís­landi. Þeir reyndu fyrir nokkrum árum að kaupa stórt land­svæði á Græn­landi en tókst ekki – og sýna Fær­eyjum á­huga.“

Styrmir segir að breski auð­kýfingurinn gæti senni­lega hagnast mikið á því að selja Rússum jarðir sínar á Norð­austur­landi í einni kippu. Styrmir vísar í greinar­gerð stjórnar­frum­varps sem orðið er að lögum en þar meðal annars komið inn á legu og land­gæði Ís­lands, ná­lægð landsins við norður­slóðir, mögu­leika til fram­leiðslu hreinnar orku, hreint neyslu­vatn og fleiri þætti sem gætu vakið á­huga á fjár­festingu í ís­lensku landi og þá eftir at­vikum í spá­kaup­mennsku­skyni.

Styrmir segir að þessi at­riði rétt­læti spurninguna um hvar mörkin liggja, hversu mikinn hluta landsins megi selja til út­lendinga án þess að full­veldi okkar sé stofnað í hættu.

„Frá því að við gerðumst aðilar að Evrópska efna­hags­svæðinu hefur ríkis­stjórn eftir ríkis­stjórn og ráð­herra eftir ráð­herra gefist upp á því að gæta hags­muna þeirrar full­valda þjóðar, sem hér býr og á þetta land. Þó er það svo, að sá ráð­herra, sem gerði þann samning, Jón Bald­vin Hannibals­son, hefur í­trekað bent á að skv. þeim samningi getur Ís­land sagt nei. Reyndar er ljóst að eig­endur Hjör­leifs­höfða vildu selja ís­lenzka ríkinu jörðina,“ segir Styrmir sem spyr hvers vegna því boði var ekki tekið.

„Það hefði kostað mun minna en sá einn og hálfi milljarður, sem ís­lenzka ríkið lagði á sínum tíma í fá­nýta til­raun til að fá Ís­land kjörið í Öryggis­ráð Sam­einuðu þjóðanna fyrir all­mörgum árum. Af hverju var það svona mikil­vægt? Datt ein­hverjum raun­veru­lega í hug að það mundi færa þessu ör­ríki ein­hver al­vöru­á­hrif á heims­vísu? Og til hvers? Hvað veldur sofanda­hætti kjörinna full­trúa, þegar kemur að jarða­kaupum út­lendinga? Hafa þeir alveg tapað tengslum við sam­fé­lagið, sem þeir búa í? Kannski þarf að efna til nám­skeiðs fyrir þá um Sögu Ís­lands.“