Strætó svarar Vig­dísi: „Erum ekki að missa vitið“ – Teikningin ekki dóna­leg

„Við hjá Strætó erum ekki að missa vitið. Höfum sjaldan verið betri,“ segir Guð­mundur Heiðar Helga­son, upp­lýsinga­full­trúi Strætó.

Guð­mundur svarar gagn­rýni Vig­dísar Hauks­dóttur, borgar­full­trúa Mið­flokksins, en Vig­dís gagn­rýndi harð­lega aug­lýsingu sem finna má á einum af strætis­vögnum borgarinnar. Um er að ræða aug­lýsingu frá Ljós­mæðra­fé­lagi Ís­lands og sýnir teikningu af konum í fæðingu.

Í gagn­rýni sinni, sem Vig­dís lagði fram á Face­book og Hring­braut fjallaði um í morgun, sagði Vig­dís að margir væru við­kvæmir fyrir nekt. Spurði hún hvort „þeir hjá Strætó“ væru að missa vitið.

„Hverju á að ná fram með svona aug­­lýsingum? Nekt er mjög við­­kvæm hjá mörgum hópum í sam­­fé­laginu - og þetta blasir við börnum sem nota Strætó sem eiga að vera fram­­tíðar kúnnar borgar­línu. Er þetta keypt aug­­lýsing eða að frum­­kvæði Strætó?,“ spurði Vig­dís.

Guð­mundur Heiðar segir að um sé að ræða keypta aug­lýsingu frá Ljós­mæðra­fé­laginu og svarar hann spurningu Vig­dísar um það hverju aug­lýsingin á að ná fram. „Al­þjóða­heil­brigðis­mála­stofnunin til­einkaði hjúkrunar­fræðingum og ljós­mæðrum árið 2020 á þingi sínu en einnig eru 200 ár liðin frá fæðingu Flor­ence Nightinga­le.“

Guð­mundur Heiðar segist ó­sam­mála því að teikningin sé dóna­leg eða ó­við­eig­andi.

„Þetta er frá­bær aug­lýsing sem vekur at­hygli og not­færir sér dyrnar á vagninum á skemmti­legan hátt. Ljós­mæður hafa tekið vel á móti lang­flestum sem koma í heiminn á Ís­landi og það er ekkert nema já­kvætt að fagna því.“