Stórglæsilegur og nýstárlegur veitingastaður í hjarta miðbæjarins

Héðinn Kitchen & Bar er nýr veitingastaður & bar í 101 Reykjavík, í endurhönnuðu húsnæði sem áður var stálsmiðjan Héðinn. Staðurinn opnaði 17. júní síðastliðinn með pomp og prakt. Húsnæðið var nýlega endurhannað að fullu og þessu stóra og sögufræga húsnæði var breytt í hótel, veitingastað, kaffihús og bar. Hönnunarfyrirtækið I AM LONDON sá um að breyta þessari fyrrum stálsmiðju í stórglæsilegt rými sem tekið er eftir og mun bæta matar- og menningarflóruna út á Granda. Í framlínu veitingastaðarins Héðins eru stofnendurnir og félagarnir Karl Viggó Vigfússon og Elías Guðmundsson sem báðir eru alvanir veitingamenn.

„Ég og Viggó erum æskuvinir og síðustu fjögur, fimm árin höfum við verið að leita okkur af verkefni til að fara í saman. Við höfum skoðað nánast öll veitinga verkefni í Reykjavík en ekki fundið fyrir nógu miklu öryggi til að fara á fullu í þau. Ég á að baki Gló, Brauð & Co og Himneskt svo eitthvað sé upp talið og Viggó er einn af stofnendum Omnom, Skúbb ísgerðinni og Blackbox Pizza. Viggó kemur úr „finde dine“ heiminum og var meðal annars framkvæmdastjóri kokkalandsliðsins ásamt því að keppa með þeim,“segir Elías og horfir björtu augum til framtíðarinnar í veitingarekstrinum.

M&H Héðinn 4 Viggó og Elías .jpeg

Karl Viggó Vigfússon og Elías Guðmundsson er stofnendur veitingarstaðarins og eru alvanir í veitingamenn. Þeir kolféllu fyrir rýminu í gömlu stálsmiðjunni og staðsetningin heillaði þá./Ljósmyndir aðsendar.

Urðu ástfangnir af staðnum í fyrstu sýn

Þegar farið er í svona stórt verkefni á nýjum veitingastað er ljóst að það þarf að vera ástríða til staðar og gaman er að heyra forsöguna um tilurð staðarins. Segðu okkur frá tilurð veitingarstaðarins, hver er sagan bak við hann? „Ég var að klára MBA í Háskólanum í Reykjavík og með mér í náminu var Eva Jósteins COO á Centerhótles. Hún plataði mig til að koma og kíkja á staðinn til að ráðleggja sér aðeins með veitingareksturinn. Þegar ég gekk inn og sá rýmið voru hughrifin það mikil að það var engin leið að vera ekki hluti af þessu verkefni. Ég hringdi beint í Viggó og fékk hann til að koma og skoða og það var sama sagan þar, við urðum má segja, ástfangnir af staðnum. Eigendur Center hótels Kristófer og Svanfríður og þeirra teymi var meira en tilbúið í að semja við okkur og hefur þetta verið með eindæmum skemmtilegt ferðalag með einstöku fagfólki og frábærum einstaklingum.“ Þegar kemur vali á staðsetningunni, hvers vegna var þessi staðsetning valin? „Það má segja að staðsetning hafi fundið okkur frekar en við hana, en við nánari skoðun kemur í ljós að Grandinn hefur verið að auka vinsældir sínar jafnt og þétt í gegnum árin. Þessi staður hentar okkur Íslendingum einstaklega vel, við erum ekki í miðri túrista traffíkinni þannig að Íslendingar geta átt sinn stað í bænum. Svo er fjöldi fyrirtækja í nágrenninu sem við hlökkum til að þjónusta.“

Háir verksmiðjugluggar ramma inn staðinn með glæsileika

Hönnunin á staðnum er einstaklega vel heppnuð í alla staði og ótrúlegt að sjá hve vel hefur tekist til að gefa þessu verksmiðjuhúsi nýtt útlit og hlutverk. „Center hótels eiga allan heiðurinn af þessu metnaðarfulla verkefni og það mætti verðlauna þau sérstaklega fyrir að gefa þessum gamla sögufræga verksmiðjuhúsi nýtt líf og það af þessum mikla myndarskap. En fyrir þá sem ekki vita hét stálsmiðjan sem þarna var og er enn starfandi á öðrum stað einmitt HÉÐINN og þaðan kemur nafnið. Arkitektarnir hjá Gláma kím og Hönnunarfyrirtækið I AM LONDON sáu um breytingarnar og hönnun,“segir Elías sem er virkilega ánægður með útkomuna og stoltur af verkinu. Á Héðni er hátt til lofts og vítt til veggja. Háir verksmiðjugluggarnir ramma inn staðinn og gefa birtu og brasskeðjur mynda skúltúrískt tjald yfir grilli og bar. Staðurinn er stór og tekur marga í sæti á veitingastað og bar. „Svo erum við líka með tvo einkasali. Við bjóðum upp á hádegisseðil og kvöldseðil og svo kemur bröns inn á matseðilinn í haust. Einnig er mikil áhersla á vín og kokteila og við erum með flott úrval af hágæða vínum sem og flottan 0% seðil fyrir þá sem það kjósa.“

Allt unnið frá grunni og hágæða hráefni beint frá býli

Áherslurnar í matargerðinni eru árstíðarbundnar og markmiðið er að vera með spennandi seðil. „Við erum að tala árstíðarbundinn matseðil, spennandi en samt sem áður afslappaðan „less is more“. Ragnar Wessman einn virtasti matreiðslumeistari landsins og víðar lýsir þessu sem „Seasonal fusion“ sem má túlka sem Alþjóðlegan matseðil sem leitast við að vera árstíðarbundinn og lókal.“ Sérstaðan staðarins er skýr og áhersla lögð á að vera með besta hráefnið sem völ er á að hverju sinni. „Gerum allt frá grunni, stefnum að því að vinna náið bændum landsins til að geta verið sem mest „local & seasonal“ eins og sagt er á ensku. Erum til mynda þegar búnir að tryggja okkur alla tómata uppskeruna frá Brautarhól í Reykholti og vorum búnir af því þegar við opnuðum,“segir Elías og segir að þeirra aðalsmerki sé hágæða hráefni.

Úrvals fagfólk í matargerð og bakstri standa vaktina

Aðspurður segir Elías að einn af styrkleikum þeirra sé allt það fagfólk sem þeir erum með innanborðs. „Við fengum til liðs við okkur matreiðslumanninn Sigurjón Braga Geirsson, landsliðskokk, matreiðslumann ársins 2019 og fyrrum landsliðsþjálfara kokkalandsliðsins til að skapa matseðilinn. Sindri Guðbrandur Sigurðsson landsliðkokkur og Arnar Ingi Kristenssen matreiðslumaður standa þétt við bakið á Sigurjóni í eldhúsinu. Stefán Ingi Guðmundsson framreiðslumeistari stýrir staðnum af einskærri snilld en hann er Íslandsmeistari barþjóna 2015 og hefur 36 ára reynslu í bransanum. Elenora Rós bakari og metsöluhöfundur og Vigdís Mi Diem Vo bakari og konditor munu sjá um bakstur, sætabrauð og eftirrétti staðarins.“

Elías sviptir hulunni af því sem koma skal

Ertu til í að ljóstrar upp einhverjum leyndardómum sem tengjast staðnum ? „Þegar veitingastaðurinn, barinn og einkasalirnir eru farnir af stað, stefnum við á að opna kaffihús og micro bakarí í sama húsi í ágúst, í rýminu sem snýr út að Seljavegi. Erum í samræðum um að fá erlent kaffi konsept með lúxus kaffi og bæta bakstrinum við. Þetta konsept er gríðarlega spennandi og hefur verið að skjóta rótum í skandinavíu,“segir Elías sem er gríðalegar spenntur fyrir því sem koma skal.

M&H Héðinn 5 Elías Guðmundsson.jpeg

Hönnunin er hin glæsilegasta en hönnuðir staðarins eru arkitektarnir hjá Gláma kím og Hönnunarfyrirtækið I AM LONDON./Ljósmyndir aðsendar.

M&H Héðinn 6 - Elías Guðmundsson.jpeg

Á Héðni er hátt til lofts og vítt til veggja. Háir verksmiðjugluggarnir ramma inn staðinn og gefa birtu og brasskeðjur mynda skúltúrískt tjald yfir grilli og bar. Staðurinn er stór og tekur marga í sæti á veitingastað og bar./Ljósmyndir aðsendar.

M&H Héðinn 8 - Elías Guðmundsson.jpg

Litapalletturnar tóna vel form staðarins./Ljósmyndir aðsendar.

M&H Héðinn 9 Elías Guðmundsson .jpeg

Aðstaðan í eldhúsinu er eins best verður á kosið og gestir njóta þess að skyggnast á grillið./Ljósmyndir aðsendar.

M&H Héðinn 7 Elías Guðmundsson.jpg

Metnaðarfullur matseðill er til staðar og verður breytilegur eftir árstíðum með hágæða hráefni, því besta sem völ er á að hverju sinni. Réttirnir eru bornir fram á aðlaðandi hátt sem gleðja bæði auga og munn./Ljósmyndir aðsendar.

M&H Héðinn 3 - Elías Guðmundsson .jpeg

Töfrandi framreiðsla gleður og einfaldaleikinn er hafður í fyrirrúmi./Ljósmyndir aðsendar.

M&H Héðinn 2 - Elías Guðmundsson.JPG

Sælkerakræsingar eru aðalmerki staðarins./Ljósmyndir aðsendar.

M&H Héðinn 7 - Elías Guðmundsson.jpg

Mikil áhersla á vín og kokteila og í boði er flott úrval af hágæða vínum sem og flottan 0% seðil fyrir þá sem það kjósa./Ljósmyndir aðsendar.