Stórglæsileg útsýnisíbúð með gullfallegu eldhúsi

Sólveig Andrea Jónsdóttir innanhússarkitekt tók að sér að endurhanna útsýnisíbúð á besta stað við Arnarnesvoginn í Garðabæ með stórglæsilegri útkomu. Í þættinum Matur og heimili á dögunum fengu áhorfendur innsýn í hönnunina á íbúðinni sem Sólveig Andrea gerði í samráði við húsráðendur en eigendur vildu gera þessa íbúð að sínu. „Innblásturinn í hönnuninni kemur oft með fólkinu og staðsetningu og annað. Enda ert þú alltaf að hanna fyrir það fólk sem býr á staðnum og bæta við með þinni þekkingu & reynslu,“ segir Sólveig Andrea þegar hún ræðir innblásturinn í hönnun sinni.

Léttleikinn í fyrirrúmi og persónulegur heimilisstíll

„Þessi íbúð var öll tekin í gegn, allt rifið út og nýtt í staðinn með það að markmiði að létta á rýminu og láta þetta stórfenglega útsýni njóta sín til fulls. Einnig til að láta persónuleika þeirra sem hér búa blómstra og fá heildarmynd á allt rýmið,“segir Sólveig Andrea sem hefur ástríðu fyrir starfi sínu og blómstrar í hverju einasta verkefni sem hún tekur sér fyrir hendur.

Sólveig Andrea1270.jpg

Falleg viðarinnrétting í ljósum lit í forgrunni

Hönnunarferlið var skýrt og skipulagið gott fyrir svo það gekk vel að vinna verkið. „Þar sem skipulagið á íbúðinni var gott áður en við hófum þetta ferli var ekki þörf á að rífa niður neina veggi. Íbúðin er björt með fallegu útsýni en það þurfti að taka hana alla í gegn. Hvaða efniviður og litatónar eru í forgrunni í hönnuninni? „Við völduð WARM OAK innréttingu frá Byko sem okkur fannst svo falleg og í framhaldi af því ákváðum við að halda áfram með þann við í öðrum innréttingum til þess að halda rauðum þræði gegnum gangandi í allri íbúðinni.“ Sólveig Andrea er útsjónarsöm og bætti við innréttingunum sem voru sérsmíðaðara í stíl við eldhúsinnréttinguna. „Ég fór með hillu úr eldhúsinnréttingunni (warm oak) í smíðaverkstæði FAGUS og fékk það til liðs við mig og vinna verkið út frá hönnuninni. Þeir eru snillingar og sérsmíðuðu þeir hurðir, rimla og aðrar innréttingar í sama við eftir hönnun frá mér.“

Sólveig Andrea1262.jpg

Skapar fallega heild á íbúðinni

Ein leiðin til að létta á rýminu og leyfa til að mynda ústýninu að njóta sín betur í stofunni þar sem horft er út fyrir Arnarnesvogin að var að taka ofnana sem voru við gluggana í burtu. „Allir ofnar voru teknir út og hiti settur í gólfið og með því að gera það njóta gluggarnir sín í stofunni margfalt betur,“ segir Sólveig. Það má með sanni segja að þarna sé lifandi málverk sem breytist dag frá degi og nostalgía fyrir heimilisfólkið að njóta. Sólveig Andrea hannað einnig fallega koníaksstofu. „Ég lét sérsmíða bókahillu á allan vegginn í koníaksstofunni til að hafa bækur, punthluti og lýsingar sem kemur mjög vel út og geri rýmið mjög áhugavert og fallegt. Einnig er gaman að sitja þarna og njóta. Finnst mér þetta setja punktinn yfir i – ið. Skapar fallega heild á allri íbúðinni.“ Einnig var öll lýsing endurhönnuð og farið í þráðlausa lýsingu. „Ég hannaði lýsinguna eins og ég sá hana fyrir mér. Ég vildi taka niður loftið yfir eyjunni til að ramma inn eldhúseyjuna og fá betri vinnu lýsingu. Ingi hjá Lúmex hjálpaði okkur að finna réttu ljósin sem hentuðu fyrir þetta tiltekna verkefni,“ segir Sólveig Andrea. Öll lýsing er þráðlaus og í takt við nútímann enda er mikill kostur að geta stýrt allri lýsingu beint úr símanum.

Sólveig Andrea1273.jpg

Góð nýting á rými í hjónasvítunni

Hjónasvítan kemur vel út og gaman að sjá útfærsluna á rennihurðunum og nýtinguna á rýminu. „Hjónasvítan var með sér baðherbergi sem þurfti að taka í gegn. Við ákváðum því að taka þar af hurð sem var þar inn og setja rennihurð sem nýtir plássið þar inni betur. Fagus sá um að sérsmíða þessar rennihurðir ásamt innanstokkmunum eins náttborðin og skáp eftir minni hönnun. Til að halda fallegum heildarsvip á íbúðina. Aftur er þetta partur af því að halda rauðum þræði í gegn um alla íbúðina. “

Sólveig Andrea1260.jpg

Sólveig Andrea1261.jpg

Ráðgjöf hjá fagaðilum mikilvægust

Þegar Sólveig Andrea er spurð út hvað sé mikilvægasta þegar ráðist er í stóra framkvæmd eins og þessa er hún með svörin á hreinu. „Mér finnst mjög mikilvægt að leita sér aðstoðar hjá fagaðilum þegar það er farið í svona hönnunarferli hvort sem það sé heil hæð, hús, eldhús eða baðherbergi. Fagaðilar eru að gera þetta alla daga, vita hvar vörurnar fást, hvert á leita og hvar úrvalið er gott. Einnig sjá þeir hvað betur má fara og hvernig hægt sé að nýta rýmin best. Einnig geta þeir séð fyrir sér hvernig heildin verður og reyna oftast að halda rauðum þræði í öllu hönnunarferlinu til þess að fá sem fallegustu heildarmynd.“ Jafnframt bendir hún á að flestir iðnaðarmenn geti útvegað og fengið góða afslætti og sambönd við aðra fagaðila á sínum snærum. „Við fengum með okkur verktaka sem sáu um allt verkefnið frá a-ö – „G.Verk. Og er það mjög þægilegt fyrir alla að vera með teymi með sér.“

M&H Sólveig Andrea1268.jpg

Eldhúsinnréttingin er einstaklega falleg og rimlarnir koma vel út. Létt yfirbragð er yfir viðarlitnum og eyjan er stór og býður uppá góða vinnuaðstöðu./Ljósmyndir Anton Brink.

Sólveig Andrea1256.jpg

„Rimlaveggir eru frábær lausn til að halda birtu inn í rýminu en ná samt að loka á ákveðin svæði af. Okkur fannst þetta koma mjög skemmtilega út og ákveðinn léttleiki er þarna yfir.“

Sólveig Andrea1263.jpg

„Við vildum skipta upp rýminu. Loka af innganginn án þess að setja upp veggi og gefa inngagnum örlítið meira rými með því að setja skilrúm. Við vildum einnig loka af sjónvarpsholið svo það sæist ekki þar inn frá stofunni. Þar fannst mér henta að nota rimla sem eru ekki alveg lokun og gefa rýminu skemmtilegara yfirbragð.“

Sólveig Andrea1265.jpg

„Þessi íbúð er svo björt og falleg og geggjað útsýni sem er óhindrað hjá þeim og langaði okkur að láta það njóta sín og halda vissum léttleika og ákveðinni mýkt í íbúðinni. Eins vildum við hanna hana í tímalausum stíl.“

Sólveig Andrea1271.jpg

Sólveig Andrea1277.jpg

Hægt er að fylgjast með Sólveigu Andreu innanhússarkitekt á fésbók https://www.facebook.com/solveigandreainnanhussarkitekt og á Instagram:

https://www.instagram.com/solveig.innanhussarkitekt/