Stjórnin er vandamálið en ekki lausnin

Í gegnum tíðina hafa stundum komið upp hneykslismál varðandi Knattspyrnusamband Íslands. Frægt er þegar uppvíst varð um himinháar úttektir af greiðslukorti sambandsins á nektarbúllu í Sviss 2005. Aldrei fengust viðhlítandi skýringar á þeim úttektum. Af og til hefur heyrst af málum sem tengjast leikmönnum íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu en það hefur verið meira í flugumynd og fólk ef til vill ekki tengt KSÍ beint við þau mál.
Atburðarás liðinna daga þarf ekki að rifja upp.Upp komu alvarlegar ásakanir gegn leikmanni karlalandsliðsins og KSÍ var sakað um að hylma yfir og þagga það mál. Sambandið þvertekur fyrir þetta en eftir stendur að traust á sambandinu beið mikinn hnekki á örfáum sólarhringum. Greinilega hefur stjórn KSÍ og framkvæmdastjóri ekki áttað sig á því hve skjótt og afgerandi veður hefur skipast í lofti þegar kemur að þolmörkum einstaklinga og samfélagsins gagnvart kynferðislegri áreitni og ofbeldi.
Guðni Bergsson, sem kom nýr til forystu í KSÍ fyrir rúmum fjórum árum hokinn af reynslu sem einn besti knattspyrnumaður þjóðarinnar í áraraðir, hefur staðið sig vel í sínu starfi. Vafasamt orðspor KSÍ í málum varðandi kynferðisofbeldi er nokkuð sem Guðni fékk í arf frá forvera sínum og stjórn. Í ljósi þess sem orðið er má draga þá ályktun að Guðni hefði þurft að ganga markvissar til verks við að færa KSÍ inn í samtíðina í þessum efnum og lofta út hjá sambandinu. Guðni axlaði ábyrgðina sem hann ber sem formaður og sagði af sér. Hann gengur frá þessu máli með sóma.
Greinilegt er að stjórn KSÍ og framkvæmdastjóri hafa um helgina litið svo á að nóg væri að fórna Guðna. Þá gæti „ballið“ haldið áfram hjá öðrum í forystunni. Það er gott að sitja í stjórn KSÍ, ýmis fríðindi á borð við utanlandsferðir og boðsmiða á alla landsleiki eru einungis hkluti sælunnar.
Flestir stjórnarmenn og framkvæmdastjórinn hafa hins vegar verið viðloðandi rekstur KSÍ mun lengur en Guðni Bergsson og bera mun ríkari ábyrð en hann á því hugarfari þöggunar og yfirhylmingar sem virðist landlægt í Laugardalnum. Þetta vita forystumenn aðildarfélaga KSÍ enda er komin fram skýr krafa um að öll stjórn KSÍ og framkvæmdastjóri víki án tafar. Við blasir að Sambandið missir vænan spón úr aski sínum bregðist það ekki við af hraða og festu. Icelandair og Coca Cola og eflaust fleiri stuðningsfyrirtæki KSÍ munu slíta samstarfinu ef úrbætur koma ekki hratt og örugglega.
Hagsmunasamtök þeirra liða sem spila í tveimur efstu deildunum í bæði karla- og kvennaflokki hafa krafist þess að aukaþing KSÍ verði tafarlaust kallað saman til að kjósa bráðabirgðastjórn sem sitji fram að reglulegu þingi í febrúar. Stjórn KSÍ á að sjá sóma sinn í að segja af sér nú þegar og boða aukaþing. Þá getur endurreisn trausts hafist. Stjórn KSÍ er hluti vandans en ekki lausnarinnar. Það kristallaðist þegar stjórnin taldi sér fært að fórna Guðna einum.
- Ólafur Arnarson