Stígur Ásgeir til hliðar tímabundið?

Ásgeir Jónsson er án efa með afkastamestu seðlabankastjórum. Á einu ári hefur hann gefið út tvö bitastæð bókmenntaverk. Fyrir jólin í fyrra kom út mikið verk hans um Jón Arason, síðasta kaþólska biskupinn á Íslandi, og nú fyrir jólin kom út Eyjan hans Ingólfs sem mun vera eins konar hagsöguleg Íslandssaga.

Margir velta fyrir sér hvernig á því standi að einn æðsti embættismaður þjóðarinnar skuli geta afkastað svona miklu ásamt því að gegna starfi því sem einna mest krefjandi er í landinu.

Nú hefur reyndar stigið fram á sviðið annar rithöfundur og sakað seðlabankastjóra um að hafa stytt sér leið við sín bókarskrif og fullyrðir að hann byggi Eyjuna hans Ingólfs á bók hans um leitina að svarta víkingnum. Raunar sér ekki fyrir endann á þeim ásökunum þar sem þriðji rithöfundurinn steig fram og sakaði höfund Leitarinnar að svarta víkingnum um að hafa stolið í þeirri bók upp úr bók sinni, Einræður Steinólfs, sem höfundur Leitarinnar að svarta víkingnum vísar á bug og segist hafa sitt efni frá Steinólfi sjálfum.

Sagan endar ekki hér vegna þess að nú er kominn fram á sjónarsviðið sjónvarpsmaður sem segir Steinólf hafa látið orðin sem deilt er um falla í sjónvarpsviðtali við sig. Þessi atburðarás minnir um margt á atriðið í lok kvikmyndarinnar um bleika pardusinn frá 1964 þar sem gamall maður reynir að komast yfir torg en verður einatt frá að hverfa vegna  þess að hver bíllinn á fætur öðrum fer í loftköstum yfir torgið með grímuklæddan bílstjóra undir stýri. Endar það með því að gamli maðurinn tekur stól, fær sér sæti við torgið og fylgist með bílaeltingarleiknum sem endar vitaskuld með því að bílarnir enda í einni stórri kös á miðju torginu.

Vonandi endar ritstuldarmálið betur fyrir hlutaðeigandi.

Ásgeir seðlabankastjóri lætur hins vegar ekki við það sitja að skrifa umdeildar bækur í frítíma sínum. Fyrir síðustu kosningar blandaði hann sér í kosningabaráttuna á lokametrunum með mjög ómálefnalegum hætti og raunar með málflutningi sem vekur spurningar um skilning hans á hlutverki sínu og verkefni Seðlabankans.

Seðlabankastjórinn hefur áður blandað sér í póltík með því að setja fram gagnrýni á yfirvöld fyrir að vera ekki búin að ráðast í lagningu Sundabrautar, auk þess sem hann hefur sett fram all sérstakar hugmyndir um þéttingu byggðar í Reykjavík.

Þessi mál koma seðlabankastjóra ekki við. Hefur hann ekki nóg fyrir stafni í sínu starfi?

Nú hefur seðlabankastjóri verið kærður til siðanefndar Háskóla Íslands fyrir meintan ritstuld. Siðanefndin mun til að byrja með þurfa að taka afstöðu til þess hvort málið heyri undir hana, en Ásgeir var forseti hagfræðideildar HÍ áður en hann tók við embætti seðlabankastjóra 2019. Ætti hann ef til vill að stíga til hliðar á meðan trúverðuleiki hans verður metinn?

- Ólafur Arnarson