Steinunn Ólína orti ljóð til Sólveigar Önnu eftir sigurinn

Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, leikkona og fyrrverandi fjölmiðlakona, er mikil stuðningskona Sólveigar Önnu Jónsdóttur sem var kjörin formaður Eflingar í gær – nokkrum mánuðum eftir að hún sagði af sér.

Steinunn Ólína skrifaði nokkrar stuðningsyfirlýsingar til Sólveigar meðan á kosningabaráttunni stóð og orti hún fallegt ljóð til Sólveigar í tilefni sigurs hennar í gær.

Ljóðið birti Steinunn Ólína á Facebook-síðu sinni og er óhætt að segja að það sé býsna flott.

Vittu til að vorsins

vakna jarðar blóm

Úr skugganum þau skríða

og skarta björt mót sól

Um andann skalt ei efast

því ekkert bindur laust

Tækifærin gefast

gæfuna þú hlaust

Þau sem verkin vinna

vökul stór og smá

Virðing fyrst þau finna

er frelsi andans ná

þeir sem græða en gefa

ei gömlum höndum gaum

sáran þurfa að sefa

sorgarinnar flaum

Því ekkert er á jörðu

eign þess sem ekki sér

þá þreyttu, þjáð’ og börðu

sem vinna störfin hér

Vittu til að vorsins

vakna jarðar blóm

Úr skugganum þau skríða

og skarta björt mót sól