Steinhissa á að það sé ekki allt brjálað

Óttar Proppé, fyrrverandi þingmaður og ráðherra, segist vera mjög hugsi yfir stöðu bandarísku tónlistarkonunnar Britney Spears. Furðar hann sig á því að það sé ekki hreinlega allt brjálað yfir stöðu hennar.

Britney, sem er 39 ára gömul, lýsti því frammi fyrir dómstól í Los Angeles í gær að hún vilji losna við forræði föður síns og fá líf sitt aftur. Lýsti hún því að henni væri meinað að leita sér læknisaðstoðar til að losna við lykkjuna en Britney langar að eignast börn.

Britney Spears var um árabil ein allra vinsælasta tónlistarkona heims, en hún sló rækilega í gegn aðeins 17 ára gömul. Hún lenti í andlegum erfiðleikum árið 2007 og var svipt forræði í kjölfarið. Fer faðir hennar, Jamie P. Spears, með öll fjárráð söngkonunnar.

Óttar segir í raun furðulegt að málið hafi ekki vakið meiri athygli.

„Hér er fullorðin manneskja, einn vinsælasti listamaður heims, talin ófær um að stjórna eigin lífi. Samt er hún fullfær um að vinna og þéna á við meðalstóriðju í okkar heimshluta.

Vissulega fékk Spears taugaáfall í beinni á sínum tíma en þetta ástand hefur staðið yfir í 13 ár. Eitthvað held ég að heyrðist í okkur ef öðru þekktu fólki væri boðið upp á svona lagað, segjum td Nicholas Cage, Lionel Messi, J.K. Rowling, Keith Richards, Elon Musk,“ segir Óttar sem veltir fyrir sér ástæðunum.

„Getur það verið að það hafi áhrif hvers kyns Spears er? Að hún sé kona og hafi verið barnung þegar ferillinn hófst? Að hún hafi komið fram léttklæddari en fínt þykir? Þykir máske poppmúsík ómerkilegri en önnur list og popparar léttvægari en aðrir listamenn?

Getur verið að það sé auðveldara en við höldum að fara í manngreinaálit þegar kemur að því að standa vörð um mannréttindi? Það er alvarlegt umhugsunarefni og á við um svo margt og fleira og um svo miklu fleiri en bara frægt fólk í útlandinu. Ég ætla allavega að pæla þessu betur fyrir mér. Því batnandi er manni best að lifa. Ást er allt sem þarf.“