Steingrímur J hættir. Hvað verður þá um Vinstri græna?

1. nóvember 2020
21:19
Fréttir & pistlar

Þegar Kennedy Bandaríkjaforseti var skotinn til bana í Dallas á sínum tíma og öll heimsbyggðin stóð á öndinni af harmi, þá spurði gömul kona um leið og hún þerraði tárin með svuntuhorninu: “Hvað verður nú um Jacqueline og börnin?”

Þegar Steingrímur J. Sigfússon lýsir því nú loks yfir að hann hætti þingsetu á næsta ári, kann að vera að einhverjir kaldhæðnir spyrji hvað verði þá um Vinstri græna.

Því er fljótsvarað að löngu tímabær brottför Steingríms mun engu breyta. Flokkurinn er á hraðri niðurleið og búinn að missa helming þess fylgis sem hann hlaut í kosningunum árið 2017 ef marka má nýjustu skoðanakannanir. Tími Steingríms er löngu kominn - og löngu farinn.

Vitað er að Steingrímur hafði lofað félögum sínum því að hætta fyrir síðustu alþingiskosningar en sveik það þegar til kastanna kom. Sumir telja sig ómissandi.

Að undanförnu hefur Steingrímur ámálgað það innan flokksins að hann gæti alveg „fórnað“ sér í framboð einu sinni enn. Þá bregður svo við að eingin hvatning heyrist innan VG. Það birtist engin eftirspurn og formaður flokksins hefur komið því til skila að krafta Steingríms sé ekki lengur óskað.

Steingrímur J. er því ekki að hætta á þingi að eigin ósk. Vinstri græn eru nú að ýta honum út, sjálfum stofnanda flokksins!

Já, laun heimsins eru vanþakklæti.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, sem verið hefur í öðru sæti lista VG fyrir norðan vill nú fá að leiða listann. Þá er talið að Kolbein Óttarson Proppé dreymi um að fá efsta sætið í kjördæminu að Steingrími gengnum. Kolbeinn er þú þingmaður flokksins í Reykjavík. Hvorugt þeirra er talið geta leitt lista VG fyrir norðan til mikils árangurs.

Hvað sem um Steingrím J. Sigfússon má segja, var hann lengst af duglegur landsbyggðarþingmaður og ólatur að heimsækja mismunandi staði í þessu víðfema kjördæmi sem nær allt frá Siglufirði til Djúpavogs. Allt þar til hann varð forseti þingsins mætti hann vel á fundi og skemmtanir víða um kjördæmið. En eftir að honum hlotnaðist forsetatignin þótti honum það ekki samboðið virðingu embættisins að drekka og skemmta sér með sveitafólkinu á þorrablótum og herrakvöldum. Þegar það gerist þá flýtur fylgið fljótt í burtu.

Vinstri grænna bíður nú mótbyr í Norð-Austur kjördæmi sem Framsókn og Miðflokkur munu græða mest á í komandi kosningum því Steingrímur J. hefur fyrst og fremst verið vinstrisinnaður framsóknarmaður keyrður áfram af dugnaði og valdafíkn.