Stefán sagnfræðingur segir Verbúðina hafa klikkað á þessu: „Ég var búinn að steingleyma þessu“

Þættirnir Verbúðin á RÚV hafa slegið í gegn hjá landanum og hafa margir sem lifðu og ólust upp á níunda áratugnum vart undan að rifja upp minningar. Stefán Pálsson sagnfræðingur segir á Twitter að þættirnir hafi þó klikkað á einu atriði: „Ein veila í Verbúðinni er að allir búa í fullbúnum húsum,“ segir hann. „Á níunda áratugnum flutti fólk almennt inn í hálfbyggð hús. Það var stór áfangi þegar alvöru útidyrahurð kom í staðinn fyrir eitthvað skítamix úr spónaplötu og einangrunarplasti. Gólfefnin komu á fjórða ári á nýjum stað.“

Margir kannast við þetta, þar á meðal Brynjólfur Þór Guðmundsson, fréttamaður: „Ég var búinn að steingleyma þessu. Að koma inn í fín raðhús þar sem var jafnvel bara teppi fyrir svefnherbergisdyrum.“

Heiða Björg Hilmisdóttir varaformaður Samfylkingarinnar man: „Elskaði samt ef fólk hafði hurð inn á baðherbergi.“

Borghildur nokkur líka: „Gólfefnið kom oft ekki - máluð steypa dugði lengur!“