Stefán Karl fékk kanna­bis­efni til að lina þjáningarnar – Steinunn Ó­lína: „Dóms­valdið er í ruglinu“

Hin lands­þekkta Steinunn Ó­lína Þor­steins­dóttir ritaði at­hyglis­verða færslu á Face­book vegg sínum fyrr í dag. Þar deilir hún frétt RÚV um karl­mann sem dæmdur var í 90 daga skil­orðs­bundið fangelsi fyrir að rækta kanna­bis­plöntur í sumar­húsi nokkru.

Í sumar­bú­staðnum fundust í heildina 17 kanna­bis­plöntur, 1,3 kíló af marijúana og 267 grömm af kanna­bis­laufum. Málið hefur velkst um í kerfinu síðan árið 2019 en á­kæra var ekki gefin út fyrr en í ágúst síðast­liðnum. Verjandi hans vildi því fá vægari refsingu fyrir þær tafir sem orðið hafa á málinu.

Steinunn segir að kanna­bis hafi hjálpað eigin­manni sínum heitnum Stefáni Karli Stefáns­syni, leikara með meiru, í bar­áttu sinni gegn ill­vígu krabba­meini fyrir fáum árum síðan. Kanna­bisið hafi veitt honum ó­metan­lega að­stoð í veikindunum.

Stefán Karl lést árið 2018 en hann átti far­sælan leik­listar­feril bæði hér á landi og er­lendis. Einna helst verður honum minnst fyrir ó­gleyman­legar frammi­stöður í hlut­verki Glanna glæps í hinum geysi­vin­sælu þáttum Lata­bæ. Lati­bær fór sigur­för um heim allan undir nafninu Lazy Town og stal Stefán Karl oftar en ekki senunni.

Steinunn segir kanna­bis hafa linað þjáningar Stefáns: „Ég vil nota tæki­færið og þakka þeim kanna­bis­rækt­endum sem færðu Stefáni Karli lyfið Kanna­bis til að lina þjáningar hans og bæta vel­líðan í veikindum hans.“

Hún vill endur­skoða reglurnar um kanna­bis­notkun og kanna­bis­ræktun: „Kanna­bis er lystar­aukandi og ó­gleðistillandi sem er mikil­vægt fyrir marga krabba­meins­sjúk­linga. Fyrir utan að á stundum færði lyfið honum hjarta­styrkjandi hláturs­köst sem er ekki síður hollt. Ég er ekki að segja að kanna­bis sé fyrir alla en dóms­valdið er í ruglinu.“