Stefán búinn að finna bestu íslensku bókina í ár – Hvetur fólk til að bíða ekki til jóla

„Bravó! Bravó! Besta íslenska bók ársins 2022 er fundin,“ segir Stefán Pálsson, sagnfræðingur og varaborgarfulltrúi, á Facebook-síðu sinni.

Þar gerir hann nýja bók sagnfræðingsins og ljóðskáldsins Kristínar Svövu Tómasdóttur að umtalsefni. Stefán telur að þar sé komin sem íslenskir sagnfræðingar muni horfa lengi til.

„Kristín Svava Tómasdóttir skrifar sögu Farsóttarhússins við Þingholtsstræti frá því að það var reist sem aðalsjúkrahús Reykvíkinga árið 1884 og skilur við það hundrað árum síðar, þegar það gegndi hlutverki gistiskýlis fyrir húsnæðislausa karlmenn sem flestir voru drykkjusjúklingar í neyslu. Enn átti húsið eftir að sinna því hlutverki í allmörg ár en lokapunkturinn er samt rökréttur miðað við rannsóknina,“ segir Stefán.

Stefán segir að sú hugmynd að nota eitt hús sem þungamiðju í að rekja þróun íslenskra heilbrigðismála í heila öld sé „algjörlega brilljant“ og það hreinlega svínvirki.

„Þetta er heilbrigðissaga með sérstakri áherslu á smitsjúkdóma sem valdið gátu faröldrum. Þetta er vísindasaga í þeim skilningi að hún varpar ljósi á það hvernig heilbrigðisvísindin á Íslandi þróast úr því að vera fálmkennd barátta fáeinna lækna og ljósmæðra með litlar bjargir við illvíga sjúkdóma, þar sem stundum var óljóst hvort sérfræðingarnir gátu gert meira en klókir kuklarar, yfir í sjálfsöruggt kerfi sem krefst þess að geta framkvæmt fullt inngrip í líf einstaklinga gegn loforði um að vernda með því þjóðarlíkamann fyrir ógnum. Þetta er saga fötlunar. Þetta er saga geðlækninga – og hún ekki alltaf falleg,“ segir Stefán og heldur áfram:

„Þetta er félagssaga og þetta er saga um stéttamun og kynjamisrétti, þar sem höfundur dregur fram ótrúlega margar raddir sem sjaldan hafa fengið að heyrast í opinberri sagnritun. Þetta er saga Reykjavíkur og við sem unnum miðbænum njótum þess að lesa um þróun hans, vöxt, tæknibreytingar og allt fólkið sem bjó og starfaði í þessum húsum. Heimildavinnan á skjalasöfnunum er aðdáunarverð. Kristín Svava er líka varfærin og leiðir mjög góð rök fyrir þeim ályktunum sem hún þarf stundum að draga þegar heimildirnar eru ekki afgerandi. Fundvísi á forvitnilegar staðreyndir er mikilvægur eiginleiki og lesandi stendur sig að því að verða spenntur yfir matarinnkaupalistum ekki síður en örsögum af afdrifum sjúklinga sem ansi oft enduðu með ósigrum, en þó stundum sigrum. Og svo er þetta bara svo góður texti.Útlitið er sérkapítuli. Þetta er prentgripur. Gullfallegur og með flott, nútímalegt umbrot en um leið læsilegur. Það fer svo sannarlega ekki alltaf saman. Smekkfullt af góðu og upplýsandi myndefni sem vera ber.“

Stefán segir að hann myndi ekki taka sénsinn á að bíða fram á Þorláksmessu með að næla í eintak. „Það má kaupa bækur í október og lesa þær strax.“