Starfsmaður N1 fær 200 þúsund krónur eftir að ráðist var á hann

Héraðs­dómur Vest­fjarða hefur dæmt karl­mann í 60 daga fangelsi fyrir líkams­á­rás þann 10. júní í fyrra­sumar. At­vikið átti sér stað á ó­nefndri elds­neytis­af­greiðslu­stöð N1 og var maðurinn sak­felldur fyrir að þrífa í peysu af­greiðslu­manns og taka hann háls­taki.

Ekki kemur fram hvað varð til þess að maðurinn missti stjórn á sér og réðst á starfs­manninn. Af­leiðingarnar urðu þær að starfs­maðurinn hlaut eymsli á jarka vinstri handar og fram­hand­leggs, hruf­slár á vinstra handar­baki og grunnt sár hægra megin á hálsi aftar­lega.

Ekki tókst að birta manninum fyrir­kall í málinu en í dómi kemur fram að vitað hafi verið til þess að maðurinn hefði farið úr landi og dvalar­staður hans væri ó­þekktur. Maðurinn svaraði því ekki til saka og var málið tekið til dóms.

Maðurinn var dæmdur í tveggja mánaða fangelsi fyrir fíkni­efna­brot á síðasta ári og sams­konar brot þann 1. apríl í fyrra.

„Að þessu virtu þykir refsing 3 á­kærða nú hæfi­lega á­kveðin fangelsi í 60 daga en ekki þykja efni til að skil­orðs­binda refsinguna,“ segir í niður­stöðu málsins.

Auk þess að sæta 60 daga fangelsi var manninum gert að greiða fórnar­lambi á­rásarinnar 200 þúsund krónur í bætur. Lög­fræðingur fórnar­lambsins krafðist 1,5 milljóna.