Sprengja fannst í Hafnar­firði: Sjáðu myndir frá að­gerðum gæslunnar

Sér­að­gerða- og sprengju­eyðingar­deild Land­helgis­gæslunnar var kölluð út að beiðni lög­reglu að húsi í Hafnar­firði í gær­dag vegna tor­kenni­legs hlutar sem fannst við jarð­vinnu á lóð húss í mið­bænum.

Í til­kynningu frá Land­helgis­gæslunni kemur fram að við at­hugun sprengju­sér­fræðinga Land­helgis­gæslunnar hafi komið í ljós að um var að ræða 20mm sprengi­kúlu úr seinna stríði sem var virk og nokkuð ryðguð, enda komin til ára sinna.

„Sprengju­sér­fræðingarnir settu sprengjuna í sér­stakt box á­samt sandi svo hægt væri að flytja hana til eyðingar. Að auki var jarð­vegurinn við húsið grand­skoðaður og ski­maður með málm­leitar­tæki til að ganga úr skugga um að þar leyndust ekki fleiri sprengjur.“

Þegar búið var að gera sprengi­kúluna örugga til flutnings var ekið með hana að Stapa­felli á Reykja­nes­skaga og henni eytt á svæði sem notað er til sprengju­eyðingar.

Í til­kynningunni kemur fram að sprengju­sér­fræðingar Land­helgis­gæslunnar hafi sinnt ó­venju mörgum verk­efnum þar sem hermunir úr seinna stríði finnast á víða­vangi. Þannig fann veg­farandi sem var í hressingar­göngu fyrir rúmri viku virka fall­byssu­kúlu á hinu svo­kallaða Patter­son-svæði í Reykja­nes­bæ sem var í góðu á­standi miðað við aldur og var henni eytt af sér­að­gerða­sveitinni.

„Nú þegar búist er við því að lands­menn verði á far­alds­fæti innan­lands í sumar eru líkur á að sprengjur úr seinna stríði finnist víða um land. Land­helgis­gæslan hvetur fólk til að vera á varð­bergi og ekki hika við að hafa sam­band við lög­reglu ef tor­kenni­legir hlutir finnast.“